Home Fréttir Í fréttum Breyta reglum um hámark greiðslubyrðar

Breyta reglum um hámark greiðslubyrðar

14
0
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur samþykkt breytingar á reglum bankans um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda.

Með þessum breytingum er bankinn að bregðast við tilkynningum um fjölda sjóða sem hyggjast fjárfesta með einstaklingum í íbúðarhúsnæði. Þessar fasteignir verða um þriðjungur nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu.

„Ljóst er að þetta fyrirkomulag er áhættusamara en almenn íbúðakaup vegna lægra eiginfjárframlags kaupenda og hægari eiginfjármyndunar. Útbreidd notkun þessa fyrirkomulags gæti að óbreyttu leitt til aukinnar kerfisáhættu,” segir í yfirlýsingu frá fjármálastöðugleikanefnd, sem telur að þessi leið geti grafið undan markmiðum lánþegaskilyrða Seðlabankans.

Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Varðandi nýju reglur bankans um hámark greiðslubyrðar skal við útreikning hennar litið til allra greiðslna sem falla til hjá einstaklingum við öflun íbúðarhúsnæðis, meðal annars vegna afnota tengdum fyrirkomulagi íbúðakaupa, jafnvel þótt þeim sé frestað.

Nefndin minnir á að svigrúm lánveitenda var aukið í október síðastliðnum með hækkun undanþáguheimildar í fyrrnefndum reglum úr 5% í 10% veittra fasteignalána.

Getur vel tekist á við óvænt áföll

Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur einnig fram að fjármálakerfið hér á landi standi traustum fótum. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka sé sterk og aðgengi að markaðsfjármögnun greitt.

„Bankarnir hafa nýtt hagfelld skilyrði til að sækja sér aukið erlent lánsfé til lengri tíma og greitt upp óhagstæðari fjármögnun. Endurfjármögnunaráhætta hefur því minnkað og bankakerfið virðist vel í stakk búið til að takast á við óvænt áföll,” segir í yfirlýsingunni.

Aukinn kaupmáttur og lítil vanskil

Fram kemur að kaupmáttur heimila hafi vaxtið umtalsvert og lítið beri á vanskilum eða greiðsluerfiðleikum hjá heimilum og fyrirtækjum.

„Húsnæðisverð er enn hátt miðað við ráðandi þætti, svo sem laun og leigu. Hlutfallslegt verðlag húsnæðis á þessa mælikvarða hefur þó heldur lækkað á síðustu misserum. Framboð á húsnæðismarkaði hefur haldið áfram að aukast og birgðatími lengst.

Þrenging á fjármálalegum skilyrðum heimila í kjölfar vaxtadóms Hæstaréttar 14. október sl. hefur að nokkru leyti gengið til baka, m.a. vegna aðgerða fjármálastöðugleika- og peningastefnunefnda Seðlabanka Íslands.”

Heimild: Mbl.is