Home Fréttir Í fréttum PCC fórnarlamb í máli sem fyrirtækið á enga aðild að

PCC fórnarlamb í máli sem fyrirtækið á enga aðild að

103
0
Mynd: Norðurþing

Stjórn PCC BakkiSilicon hf. harmar þá stöðu sem komin er upp á Bakka og varðar stöðvun framkvæmda á vegum Landsnets sem valdið getur umtalsverðu fjárhagstjóni fyrir PCC BakkiSilicon verði ekki fundin lausn sem fyrst á þeirri sérkennilegu stöðu sem komin er upp. PCC BakkiSilicon stendur nú skyndilega frammi fyrir mikilli óvissu vegna atburðarásar sem fyrirtækið á enga aðild að og haft getur áhrif á framkvæmdir þess sem hafa verið í undirbúningi undanfarna 15 mánuði.

<>

Eins og kunnugt er felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sl. föstudag tvo bráðabirgðaúrskurði sem valda því að yfirstandandi framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 hafa verið stöðvaðar tímabundið á meðan nefndin fjallar um kæru Landverndar vegna ákvarðana sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að gefa út leyfi fyrir framkvæmdunum.

Áætlaður fjárfestingarkostnaður PCC BakkiSilicon í silikonverksmiðjunni á Bakka er um 300 milljónir bandaríkjadollara og hefur umtalsverðum hluta þess kostnaðar þegar verið varið til verkefnisins, þar á meðal til verklegra framkvæmda.

Má því augljóst vera hversu miklir hagsmunir eru í húfi fyrir fyrirtækið og teflt er í tvísýnu við núverandi aðstæður, fari svo að afhending á raforku til verksmiðjunnar tefjist frá því sem samið hefur verið um.

Í kæru Landverndar kemur fram að fyrirhuguð orkuþörf PCC BakkiSilicon sé allt að 58MW. Hið rétta er að orkuþörf tveggja ofna er um 54MW miðað við 36 kt framleiðslu en miðað er við 66kt í umhverfismati og uppkasti af starfsleyfi sem krefjast mun 100 MW en ekki 58MW eins og segir í kæru Landverndar.

„Eðli málsins samkvæmt mun PCC BakkiSilicon ekki blanda sér í deilu málsaðila enda þótt deilan varði PCC miklu í bráð og lengd. Ég vil þó benda á að þegar ákvörðun var tekin um að hætta við byggingu og rekstur álvers á Bakka skapaðist breið samstaða um það að í staðinn yrði lögð áhersla á uppbyggingu fleiri en smærri fyrirtækja á iðnaðarsvæðinu á Bakka. PCC tók í kjölfarið ákvörðun um að taka þátt í þeirri atvinnuuppbyggingu ásamt fleiri aðilum sem sýnt hafa áhuga á uppbyggingu þar og vonandi verður að veruleika fyrir íbúa svæðisins. Það hefur því aldrei staðið til að þær framkvæmdir sem Landsneti hefur verið gert að stöðva beinist eingöngu að þörfum PCC. Þær hafa þvert á móti að markmiði að geta uppfyllt orkuþörf fleiri atvinnufyrirtækja sem vilja hefja rekstur á Bakka,“ segir Hafsteinn Viktorsson, framkvæmdastjóri hjá PCC BakkiSilicon hf.

Breytingar á náttúruverndarlögum tóku gildi 15. nóvember 2015. Fjórum mánuðum síðar var óskað eftir leyfum fyrir lagningu beggja raforkulínanna og gaf Skútustaðahreppur út framkvæmdaleyfi þann 2. maí og Þingeyjarsveit 14. júní. Í kjölfarið hófust framkvæmdir við undirbúning línulagnarinnar. „Það er að okkar mati mjög sérkennilegt að hægt sé að fá framkvæmdir stöðvaðar sem hlotið hafa öll tilskilin leyfi og haft getur í för með sér það uppnám sem nú er orðið. Ef okkur hefði grunað að svona færi hefðum við væntanlega ekki byrjað verklegar framkvæmdir,“ segir Hafsteinn.

Að lokum vill PCC benda á að í grein 2.7 í fjárfestingarsamningi sem gerður var við íslensk stjórnvöld og öðlaðist gildi í maí 2014 kemur m.a. fram að ríkisstjórn Íslands muni tryggja að „engar ráðstafanir verði gerðar sem kynnu að takmarka eða hafa önnur neikvæð áhrif á framkvæmd verkefnisins og starfsemi félagsins eða með öðrum hætti hindra að félagið og PCC SE njóti þeirra réttinda og ávinnings sem leiða af fjárfestingarsamningi þessum.“

Heimild: 641.is