Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir ekki útilokað að bílastæðamál verði að kosningamáli í borgarstjórnarkosningunum næsta vor.
„Það er ekki útilokað. Ég finn mjög vel á borgarbúum að þeir eru langþreyttir á að ekki skuli vera á þá hlustað, að hér séu valdaflokkar sem hlusti ekki á vilja íbúa heldur keyri áfram einhvern fagurgala og einhverjar hugmyndafræðilegar stefnur sem eru algjörlega á skjön við það hvernig fólk vill fá að velja að lifa hér í þessari borg,“ segir Hildur.
Tilefnið er sú stefna borgarinnar að byggja beri heldur bílastæðahús en bílakjallara í nýjum hverfum sem borgarlína á að þjóna.
Spurð um það sjónarmið að bílastæðahús kunni að færa líf í ný hverfi með því að skapa sameiginlegan áfangastað fyrir íbúa, og um leið möguleika á verslun og þjónustu á jarðhæð, segir Hildur langflesta borgarbúa vilja hafa bílastæði við heimili sín. Þessi stefna hafi áður birst í kröfu um verslunarrými á jarðhæð fjölbýlishúsa á þéttingarreitum, til dæmis á Hlíðarenda, en niðurstaðan oftar en ekki orðið auð rými. Það hafi reynst húsbyggjendum dýrt og íbúðareigendur að lokum borgað brúsann.
Hafa ekki áhuga á Keldnalandi
Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, segir að vegna þessarar bílastæðastefnu borgarinnar hafi fyrirtækið ekki áhuga á Keldnalandi.
„Við höfum satt að segja engan áhuga á því. Við eigum af illri nauðsyn tvær lóðir á Höfða enda er viðvarandi lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu sem er annað heimatilbúið vandamál. Það er neðst á forgangslistanum að byggja á Höfðanum vegna takmarkana á bílastæðum, en við tökum mið af eftirspurn og óskum kaupenda og íbúðareigenda við forgangsröðun.“
Nánar má lesa um málið á bls.6 í Morgunblaðinu í dag og í Mogga-appinu.
Heimild: Mbl.is