
„Það er svo sem ekki mikið um þetta að segja nema að við höfum nú hætt undirbúningsaðgerðum vegna þess að þetta framkvæmdaleyfi var fellt úr gildi,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar í samtali við mbl.is um leyfið til stækkunar Sigölduvirkjunar úr 150 í 215 megavött sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi með úrskurði frá því á fimmtudaginn.
Var leyfið, sem Ásahreppur veitti í febrúar, haldið þeim annmörkum að hreppurinn hafði ekki tekið sjálfstæða afstöðu til mats á áhrifum stækkunarinnar á vatn á svæðinu.
Í rökstuðningi úrskurðarnefndar fyrir því að fella leyfið úr gildi var vísað í lög um stjórn vatnamála og það ákvæði þeirra sem kveður á um að flokka skuli vatn í vatnshlot og gerðir vatnshlota. Skuli mat á yfirborðsvatnshloti byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og fyrir hverja vatnshlotsgerð skuli taka mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við eigi.
Vonar að tafir breyti ekki áætlun
„Umhverfismarkmið séu skilgreind eftir gerðum vatnshlota og skuli vera samanburðarhæf. Þá séu tilgreind skilyrði þess að tiltekin vatnshlot séu skilgreind sem manngerð og mikið breytt vatnshlot í 13. gr. laganna. Þau skilyrði hafi ekki verið uppfyllt við töku hinnar kærðu ákvörðunar,“ segir í úrskurðinum.
Ragnhildur telur næsta skref í málinu vera að hreppurinn bæti úr þeim annmörkum sem úrskurðarnefnd vísar til. „Hreppnum er sagt að þarna hafi afgreiðsla máls verið ófullnægjandi og „vinsamlegast gerið þetta aftur rétt“, þannig að við hinkrum bara eftir því, þetta er uppi á hálendi svo við erum að pakka saman núna og höldum áfram þegar framkvæmdaleyfið kemur aftur,“ segir upplýsingafulltrúinn.
Aðspurð kveðst hún ekki reikna með að synjun úrskurðarnefndar tefji málið, „en við erum bjartsýn á að þetta verði ekki neitt sem skiptir máli vegna þess að þarna er erfitt um vik að athafna sig yfir háveturinn og þá gerum við hvort sem er hlé fram á vor. Við verðum að vona að þetta breyti ekki áætlun hjá okkur,“ segir Ragnhildur.
Bætir hún því við aðspurð að vissulega fylgi því fyrirhöfn og kostnaður þegar stöðva þurfi framkvæmdir sem hafnar séu eða gera á þeim hlé. „En svona er nú bara kerfið, þetta leyfisveitingaferli hefur verið býsna langt og flókið í öllum virkjanaframkvæmdum eins og við höfum bent á,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar að lokum.
Hreppurinn mun sækja sér aðstoð
„Við erum ekki alveg komin til botns í þessu enn þá, við þurfum bara að taka þetta upp aftur og gera þetta rétt og ég mun fá einhverja aðstoð við það,“ segir Ísleifur Jónasson, oddviti hreppsnefndar Ásahrepps, í samtali við mbl.is um málið en kýs að ræða ekki annmarka leyfisveitingar hreppsins að svo stöddu.
Heimild: Mbl.is











