Home Fréttir Í fréttum Leyfi til stækkunar Sigölduvirkjunar fellt úr gildi

Leyfi til stækkunar Sigölduvirkjunar fellt úr gildi

9
0
Sigöldustöð er sunnan við Þórisvatn. RÚV – Ingvar Haukur Guðmundsson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi leyfi Landsvirkjunar til að stækka Sigölduvirkjun. Formaður Náttúrugriða segir málið fordæmisgefandi.

Leyfi til stækkunar á Sigölduvirkjun hefur verið fellt úr gildi, eftir kæru umhverfisverndarsamtakanna Náttúrugriða, þar sem áhrif stækkunarinnar á gæði vatns höfðu ekki verið metin í umhverfismati.

Fordæmisgefandi úrskurður

Sigöldustöð er rétt ofan við Hrauneyjafossstöð, sunnan við Þórisvatn. Landsvirkjun fékk í febrúar leyfi frá Ásahreppi til að stækka stöðina úr 150 megavöttum í 215 megavött. Náttúrugrið kærðu framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem féllst á rök samtakanna og felldi leyfið úr gildi. Snæbjörn Guðmundsson, formaður Náttúrugriða, fagnar niðurstöðunni og segir hana fordæmisgefandi.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggir á því að við meðferð málsins hjá Landsvirkjun og stjórnvöldum í umhverfismati á stækkun virkjunarinnar hafi ekki verið lagt mat á áhrif framkvæmdanna á gæði vatns. „Það var ekki búið að meta ástand vatnsins fyrir framkvæmd, meta ástand vatnshlotanna sjálfra,“ segir Snæbjörn.

Hvað er vatnshlot?

Vatnshlot eru afmarkaðar stjórnsýslueiningar sem fá tiltekin raðnúmer innan stjórnar vatnamála. Til dæmis getur eitt stöðuvatn verið eitt vatnshlot, eða tiltekinn hluti straumvatns. Flokkun vatns í vatnshlot er forsenda stjórnar vatnamála.

Samkvæmt reglugerð nr. 535/2011, um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun skal skipta öllu vatni, bæði yfirborðsvatni og grunnvatni í vatnshlot.

Samkvæmt kröfum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála skulu vatnshlot ávallt vera í mjög góðu eða góðu ástandi.

Flokkunarkerfi fyrir ástand grunnvatns er annað en flokkunarkerfi yfirborðsvatns. Mat á ástandi grunnvatns er tvíþætt og byggir flokkunin á magnstöðu grunnvatns og efnafræðilegu ástandi þess.

„Í stuttu máli er hér um tímamótaúrskurð að ræða í íslenskri stjórnsýslu, þar sem skýr niðurstaða er um að í umhverfismati þýði ekki að koma sér hjá ákvæðum laga um stjórn vatnamála.“ Við stórar framkvæmdir eins og virkjanir, grunnvatnstöku og vegalagningu, þar sem verið er að þvera firði, þurfi að huga betur að þessu áður en leyfi eru gefin út. „Það er fordæmið sem fæst með þessum úrskurði, að hér er verið að styrkja rétt almennings og umhverfisverndarsamtaka til að hafa sitt að segja um áhrif framkvæmda á náttúru og umhverfi.“

Snæbjörn Guðmundsson, formaður Náttúrugriða.
RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson

Í úrskurðinum er einnig fundið að því, að sérfræðiálit sem Hafrannsóknarstofnun gerði fyrir Landsvirkjun hafi ekki verið í samræmi við lög, hvað varðar flokkun vatnshlota. Þá hafi afstaða Umhverfisstofnunar verið óskýr að því leyti.

Heimild: Ruv.is