Home Fréttir Í fréttum „Óvenjulegt tilvik“ að semja við heimamenn um uppbyggingu

„Óvenjulegt tilvik“ að semja við heimamenn um uppbyggingu

157
0
Samningarnir voru undirritaðir í gær á flugvellinum á Norðfirði. Forseti bæjarstjórnar segir samninginn ánægjulegan. Mynd: Visir.is

Undirritaður var í gær á Norðfjarðarflugvelli samningur milli Fjarðabyggðar og innanríkisráðuneytisins um fjármögnun og framkvæmdir á Norðfjarðarflugvelli sem gera flugvöllinn hæfan til að sinna öryggishlutverki fyrir landsfjórðunginn. Greiðir sveitarfélagið helming kostnaðar á móti ríkinu við endurbætur á flugvellinum.

<>

„Þetta er óvenjulegt tilvik en þarna er um að ræða flugvöll sem er ekki í grunnneti flugvalla. Hér er um að ræða lendingarflugvöll og sveitarfélagið sér hag í því að nýta hann betur og mér finnst það ágætt,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra.

Bæjarráð Fjarðabyggðar afhenti Ólöfu Nordal, ráðherra samgöngumála, harðorða ályktun við tilefnið þar sem harmað er að samfélag heimamanna þurfi að greiða bæði uppbyggingu með skattfé sínu til ríkisins sem og útsvari sínu til sveitarfélagsins. Því væri ekki fyrir að fara annars staðar á landinu.

„Bæjarráð vill árétta að þátttaka sveitarfélagsins og milliganga um fjármögnun í verkefnum sem er að öllu leyti á forræði ríkisins, er ekki til eftirbreytni. Hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja þá innviði samfélagsins, sem snúa að öryggi og heilbrigði landsmanna.“ segir í bókun bæjarráðs.

„Við erum afskaplega ánægð með að framkvæmdir munu hefjast því þetta er mikilvægt samgöngutæki fyrir okkur Austfirðinga. Að sama skapi er það dapurt að í sömu andrá og þessi neyðarbraut er gerð klár til notkunar er annarri lokað í Reykjavík sem skerðir lífsgæði okkar,“ segir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Heimild: Visir.is