Home Fréttir Í fréttum Færa byggingarétt á Kringlu­reit upp um 1,2 milljarða

Færa byggingarétt á Kringlu­reit upp um 1,2 milljarða

24
0
Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Reitir hafa þegar fjárfest fyrir 12,5 milljaðra í ár og nálgast þar með markmið um 13 milljarða fjárfestingu á árinu.

Reitir fasteignafélag hagnaðist um 3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 1,1 milljarðs hagnað á sama tímabili í fyrra. Reitir birtu uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær.

Leigutekjur Reita á ársfjórðungnum námu 4,6 milljörðum króna og jukust um 10,6% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 3,1 milljarði og jókst um 10,5%.

Matsbreyting fjárfestingareigna nemur 3,2 milljörðum króna á fjórðungnum en til samanburðar nam hún tæpum milljarði á sama tímabili í fyrra.

Í fjárfestakynningu Reita kemur fram að í uppgjör þriðja ársfjórðungar hafi verðmæti byggingarréttar á Kringlureit verið fært upp um 1,2 milljarða króna, upp í áætlað söluandvirði fyrir verkefni með samþykkt deiliskipulag. Borgarráð samþykkti deiliskipulag fyrir Kringlureit á fimmtudaginn.

Deiliskipulagið nær til alls reitsins sem telur um 420 íbúðir og rúmlega 4.500 fermetra af atvinnuhúsnæði, bæði verslun og skrifstofum. Framkvæmdir á A reit eru hafnar þar sem 170 íbúðir.

Nálgast fjárfestingarmarkmið ársins

Reitir segja að vel gangi að framfylgja vaxtarstefnu félagsins og við birtingu uppgjörsins hefur félagið fjárfest fyrir 12,5 milljarða króna í nýjum eignum, endurbótum á núverandi eignasafni og þróunarverkefnum. Félagið nálgist þar með markmið um 13 milljarða króna fjárfestingu á árinu.

Mynd tekin úr fjárfestakynningu Reita.

„Stöðugur vöxtur í tekjum og rekstrarhagnaði yfir árið endurspeglar markvissa vinnu við að framfylgja metnaðarfullri vaxtarstefnu félagsins og er 6% raunvöxtur tekna til marks um góðan árangur.

Félagið beitir þekkingu og reynslu við að velja af kostgæfni vel staðsettar, arðbærar og eftirsóttar eignir til þess að stækka eignasafnið og sérsníða húsnæði að þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.

„Þróunarverkefni félagsins eru vaxtarstökkpallur til lengri tíma. Verkefnin sem eru á teikniborðinu eru fjölbreytt að stærð og tegund og munu koma til með að styðja við kröftugan og áframhaldandi raunvöxt á næstu árum.

Horfur eru bjartar og gera eingöngu ráð fyrir þeim verkefnum sem eru þegar í farvegi en félagið áformar í takt við stefnu sína að ráðast í fleiri verkefni sem styðja við vöxt og fela í sér uppbyggingu sem gagnast samfélaginu.“

Heimild: Vb.is