Home Fréttir Í fréttum „Á­stand sem við getum ekki búið við til lengdar“

„Á­stand sem við getum ekki búið við til lengdar“

25
0
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. vísir/vilhelm

Samtök iðnaðarins segja útlitið hjá byggingariðnaðnum vera svart í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða. Söguleg óvissa grafi undan markaðnum. Hver dagur skipti máli í núverandi ástandi sem er ekki hægt að lifa við til lengri tíma.

Í kvöldfréttum Sýnar um helgina lýsti formaður Félags fasteignasala yfir sögulegri óvissu á fasteignamarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða.

Þó nokkrar vendingar hafa orðið á húsnæðismarkaði í kjölfar dómsins en þar voru skilmálar Íslandsbanka um óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum dæmdir ólögmætir. Þetta hefur haft víðtæk áhrif á lánaframboð íslenskra banka, í það minnsta tímabundið.

Ríkisstjórnin hyggst eyða óvissu á markaði með vaxtaviðmiðum til grundvallar verðtryggðum lánum. Það mun byggja á vöxtum ríkisskuldabréfa. Þá tilkynnti fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands á föstudag að lánþegaskilyrði yrðu rýmkuð. Til að mynda var veðsetningarhlutfall fasteignalána til fyrstu kaupenda hækkað úr 85 prósentum í 90 prósent.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir óvissuna hafa geigvænleg áhrif á byggingariðnaðinn.

„Þessar nýjustu vendingar bæta gráu ofan á svart. Óvissan hefur verið mjög mikil undanfarin misseri. Þetta setur plan allra á markaðnum úr skorðum. Hvort sem það er almenningur sem er að reyna kaupa sér íbúðir eða verktakar sem byggja íbúðir og selja.“

„Hver dagur í þessu ástandi telur“

Hann segir öll merki kólnunar vera til staðar á markaðnum. Hljóðið sé þungt í aðilum í byggingargeiranum.

„Ef við horfum á tölur frá Hagstofunni þá sjáum við það að launþegum er að fækka í greininni. Það er að draga heldur ú veltu. Við getum orðað það þannig að þetta er röð atvika sem koma saman. Sveitarfélög hafa stórhækkað gjaldskrár. Það kemur illa við iðnaðinn og háir vextir einnig. Heilt yfir er hagkerfið að kólna.“

Fjögur vaxtamál sem eru talin fordæmisgefandi bíða enn dóms Hæstaréttar. Búist er við að dómur Hæstaréttar um verðtryggð lán Arion banka á breytilegum vöxtum falli um miðjan desember. Sjá hér.

Sigurður segir með öllu ótækt að bíða eftir dómum til að leysa óvissuna.

„Hver dagur í þessu ástandi telur, mjög mikið. Því fyrr sem höggvið er á hnútinn því betra. “

Telur breytingu Seðlabankans ekki breyta neinu

Hann fagnar væntanlegum vaxtaviðmiðum ríkisstjórnarinnar fyrir verðtryggð lán.
„Við bíðum bara eins og allir aðrir eftir nákvæmri útfærslu á því. Hvað varðar Seðlabankann þá fögnuðum við breytingum á föstudaginn varðandi lánþegaskilyrði. Vandinn er samt sá að þessi breyting mun sennilega ekki skila miklu. Þarna er verið að rýmka aðeins svigrúm, svigrúm sem hefur ekki verið fullnýtt hingað til. Það mun sennilega ekki breyta neinu.“

Að hans mati mætti Seðlabankinn ganga enn lengra. Það sé löngu tímabært að endurmeta reglur er varða greiðslubyrði lánþega. Sérstaklega í ljósi stöðunnar.

„Þar sýnist okkur vera fullt tilefni til að slaka á. Það er mjög skrítið að fólk komist ekki inn á húsnæðismarkaðinn. Fólk sem er kannski að greiða háar fjárhæðir í leigu á mánuði. En greiðslumatið miðað við Seðlabankann leyfir fólki ekki að greiða lægri afborganir af láni heldur en af leigu. Þetta er ástand sem við getum ekki búið við til lengdar.“

Hann segir að þetta gæti skipt sköpum bæði fyrir byggingariðnaðinn.

„Síðast en ekki síst myndi þetta skipta sköpum fyrir almenning í landinu sem er að reyna komast inn á markaðinn.“

Heimild: Visir.is