Íslenska ríkið er bótaskylt gagnvart Yrki arkitektum vegna ákvörðunar um að hætta við útboð á hönnun húss fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila. Framkvæmdin var slegin af í bili í sparnaðarskyni.
Ákvörðun Framkvæmdasýslunnar um að hafna öllum tilboðum í samkeppnisútboði vegna hönnunar húss fyrir helstu löggæslu- og öryggisstofnanir skapaði henni bótaskyldu. Þetta er niðurstaða kærunefndar útboðsmála vegna kæru Yrkis arkitekta.
Stjórnvöld áformuðu að reisa hús löggæslu- og viðbragðsaðila við Kleppsgarða í Reykjavík. Þar áttu Landhelgisgæslan, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Neyðarlínan, ríkislögreglustjóri, Tollgæslan, Landsbjörg og skrifstofur slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins að fá inni undir sama þaki.
Ekkert varð þó af þessu þar sem fjárveitingin var felld úr fjárlögum. Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti frestun byggingarinnar sem eina af ráðstöfunum stjórnvalda til að draga úr útgjaldavexti.
Kærunefndin segir að ráða megi af gögnum málsins að Framkvæmdasýslan hafi hafnað öllum tilboðum vegna þess að fjárheimildin var felld niður. Þar með metur nefndin málið svo að það hafi ekki verið almennar forsendur sem brustu heldur hafi stjórnvöld breytt forgangsröðun verkefna og fjárveitingum til þeirra.
Nefndin segir að Framkvæmdasýslan hafi einnig brotið gegn þátttakendum í útboðinu með því að tilkynna þeim hvorki að hætt hefði verið við útboðið né rökstyðja ákvörðun sína fyrir þeim. Þegar Framkvæmdasýslan hóf samkeppnisútboð í júní 2023 áskildi hún sér rétt til að fresta hönnun að hluta eða í heild en ekki til að hafna öllum tilboðum. Þó fór hún þá leið að hafna tilboðunum sem bárust.
Þar sem Yrki arkitektar voru einn fjögurra þátttakenda í útboðinu sem höfðu lagt fram upphafleg tilboð og tillögur þeirra töldust gildar átti fyrirtækið raunhæfa möguleika á að verða valið til að hanna húsið, segir nefndin. Framkvæmdasýslan var því metin skaðabótaskyld en ekki er lagt mat á skaða Yrkis eða bætur sem fyrirtækið á rétt á.
Heimild: Ruv.is












