
Í hlíðum Eyrarfjalls er vaskur flokkur vinnumanna að störfum sex daga vikunnar við að verja þorpið á Flateyri fyrir ofanflóðum.
Eftir snjóflóðið sem féll á höfnina og byggðina fyrir fimm árum var ákvörðun tekin um að bæta í ofanflóðavarnirnar og á nú að reisa raðir af tíu metra háum keilum austan og vestan við núverandi garða og byggja leiðigarð við höfnina.

Verkinu á að ljúka 2028
Í hverri keilu eru um 1.700 rúmmetrar af efni sem sótt er í malarnámur í nágrenninu. Undirstöður eru steyptar fyrir hverja keilu og víravirki komið upp til að tryggja að allt haldist á sínum stað.
Efninu er skóflað upp á undirstöðurnar með gröfum og á hverri keilu er enn minni grafa sem dreifir því. Fyrir utan keilurnar standa svo menn og handraða steinum og grjóti í ysta lagið. Áætluð verklok eru árið 2028.
Framkvæmdirnar hófust á síðasta ári og eru átta keilur þegar klárar. Flestir vinnumannanna koma frá Litháen og hafa þeir komið sér upp vinnubúðum við enda garðanna þar sem þeir láta vel um sig fara. Mennirnir eru duglegir og lýsir verkefnastjórinn mikilli ánægju með þá.
Heimild: Mbl.is











