Home Fréttir Í fréttum Loka hluta Ölduselsskóla vegna ástands húsnæðis

Loka hluta Ölduselsskóla vegna ástands húsnæðis

20
0
Skólastarf í Ölduselsskóla hefst aftur 3. nóvember. RÚV

Úttekt á húsnæði Ölduselsskóla sýnir að ráðast þarf í umfangsmiklar lagfæringar á því. Haustleyfi í skólanum hefur verið framlengt og færanlegar kennslustofur verða settar upp til að mæta fyrirséðum húsnæðisvanda.

Loka verður Ölduselsskóla að hluta eða í heild til að ráðast í umfangsmiklar lagfæringar á húsnæði skólans. Þetta er niðurstaðan eftir að úttekt var gerð á húsnæðinu. Raki var mældur og sýni voru tekin víðs vegar um skólann.

Þetta kemur fram í upplýsingapósti frá Ölduselsskóla til foreldra nemenda. Þar segir að sumum rýmum í skólanum hafi þegar verið lokað, eins og kennslustofum 4. bekkjar og nokkrum sérgreinastofum.

„Fram undan er umfangsmikil hreinsun á öllu húsnæði skólans sem hefst á morgun. Fjarlægja þarf húsbúnað og kennslugögn úr þeim rýmum sem hefur verið lokað. Þrifin verða gerð af sérhæfðum fagaðilum sem og yfirferð búnaðar og kennslugagna,“ segir í upplýsingapóstinum.

Ekki er þar tekið skýrlega fram hvað er að ástandi hússins.

Færanlegar kennslustofur verða settar upp norðan megin við skólann til að bregðast við fyrirséðum húsnæðisvanda. Áætlað er að kennslustofurnar verði teknar til notkunar á næsta ári. Unnið er að skipulagi tímabundinna kennslurýma þangað til.

Í samráði við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafa stjórnendur skólans ákveðið að framlengja haustfrí skólans til og með föstudeginum 31. október. Skólastarf hefst því að aftur við skólann mánudaginn 3. nóvember. Í upplýsingapóstinum kemur fram að unnið sé að skipulagningu gæslu fyrir nemendur á yngsta stigi skólans miðvikudag, fimmtudag og föstudag í næstu viku.

„Í vetrarfríinu og í næstu viku verður haldið áfram með þrif en jafnframt verður unnið að því að finna og stöðva leka, fjarlægja skemmd byggingarefni og búa þannig um að sem flest rými verði áfram nothæf. Ekki er hægt að útiloka að framkvæmdirnar kunni að taka lengri tíma en áætlað er, þar sem ákveðin óvissa er alltaf til staðar þegar byggingarefni eru tekin upp.“

Heimild: Ruv.is