Home Fréttir Í fréttum Niður­rif hafið á gamla Morgun­blaðs­húsinu

Niður­rif hafið á gamla Morgun­blaðs­húsinu

22
0
Birgir Þór Birgisson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita, segir staðsetninguna spennandi. Vísir/Anton Brink

Niðurrif á Morgunblaðshúsinu hófst í gær. Búist er við því að framkvæmdin taki tvo til þrjá mánuði. Rúmlega fjögur hundruð íbúðir verða byggðar á svæðinu. Fyrstu íbúðir verði afhentar í byrjun 2029 og er stór hluti þeirra um 75 fermetrar að stærð.

Gamla Morgunblaðshúsið við Kringluna var byggt árið 1984 og viðbyggingin þar sem prentsmiðjan var árið 1991. Fjölmiðillinn flutti sig í Hádegismóa árið 2006 og síðustu ár hefur byggingin hýst ýmis konar starfsemi, þar á meðal leikskóla, líkamsræktarstöð og háskóla.

Fasteignafélagið Reitir vinnur nú að því að reisa 420 íbúða borgarhverfi á reitnum og síðustu vikur hefur undirbúningsvinna fyrir niðurrif hússins farið fram. Niðurrifið sjálft hófst svo í gær.

Vélin er flutt inn frá Noregi.
Vísir/Anton Brink

„Það er mikil uppbygging í vændum á þessu svæði. Hér verða byggðar 420 íbúðir, á þessu svæði, og byrjað hérna við Listabraut,“ segir Birgir Þór Birgisson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita, og að hverfið verði fallegt og spennandi.

Vélin sem er notuð í niðurrifið er flutt inn frá Noregi, en teymi sem sérhæfir sig í niðurrifi húsa kom með hana hingað til lands. Vonast er til þess að niðurrifinu verði lokið í janúar og þá geti hverfið farið að rísa.

„Við viljum huga að umhverfinu og vanda til verka þegar kemur að flokkun á úrgangi,“ segir Birgir og að til dæmis verði steypan nýtt í landfyllingu í öðru verkefni sem Reitir vinni að í Mosfellsbæ.

Samkvæmt plani á að afhenda fyrstu íbúðir í upphafi árs 2029.
Vísir/Anton Brink

Fyrstu íbúðir verði svo afhentar í byrjun 2029. Helmingur þeirra verður 75 fermetrar eða smærri til að mæta mikilli eftirspurn eftir smærri íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni. Það kemur til með að setja fallegan blæ á þetta svæði.“

Heimild: Visir.is