Fagurt útsýni yfir Hvítá og sveitirnar í kring mætir gestum Laugaráss Lagoon, nýs baðlóns sem opnað verður í dag. Lónið er um eitt þúsund fermetrar að stærð og á tveimur hæðum. Gengið er milli hæða í gegnum glæsilegan foss. Á útisvæði eru tvær sánur, útisturtur, kaldur pottur og heitur pottur í rjóðri.
Bryndís Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Laugaráss Lagoon, segir að við hönnun lónsins og þróun hugmyndarinnar hafi verið lagt upp með að hafa allt eins náttúrulegt og frekast var unnt. Húsið er lágreist og fellur vel inn í umhverfið. Úthagagras er á þakinu og bogar á húsinu eru vísun í hellana á Suðurlandi.
Hún segir að Laugarás sé á frábærum stað og eigi mikið inni. „Það eru margir hér í kring að gera frábæra hluti en umhverfið býður samt upp á meiri uppbyggingu.“
Eigendur baðlónsins tryggðu sér jörðina fyrir um áratug og upphaflega stóð til að opna þar hótel. Síðar þróuðust hugmyndir þeirra í átt að opnun baðlóns sem nú er orðið að veruleika. Þó eru áform uppi um að opna í framtíðinni hótel við hlið Laugaráss Lagoon.
Hluti af upplifun gesta felst í heimsókn á veitingastaðinn Ylju sem matreiðslumaðurinn Gísli Matthías Auðunsson stýrir. Eigendur baðlónsins höfðu einmitt samband við hann fyrir áratug og föluðust eftir kröftum hans á veitingastað á fyrirhuguðu hóteli á staðnum. Í dag býður Gísli gestum upp á fjölbreyttan, heilnæman mat sem að stærstum hluta er gerður úr afurðum frá bændum í nágrenni staðarins.
Heimild: Mbl.is