Vegagerðin segir álfa í Efri-Laugardælaeyju hafa tekið brúarframkvæmdum í sátt. Vegagerðin leitaði á ráð konu til að kanna draugagang í eyjunni. Hún segir að þar séu einungis álfar sem sýni framkvæmdunum mikinn skilning.
Vegagerðinni bárust ábendingar um draug í Efri-Laugardælaeyju, þar sem unnið er að undirbúningi nýrrar brúar yfir Ölfusá.
Í myndskeiði á samfélagsmiðlum Vegagerðarinnar er rætt við Höskuld Tryggvason, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni, og Harald Þórarinsson, ábúanda í Laugardælum. Haraldur segir eldri mann úr sveitum hafa komið að máli við Vegagerðina og sagt að semja þyrfti við draug sem byggi í eyjunni áður en lengra væri haldið með framkvæmdir.
Vegagerðin hafi í kjölfarið leitað til sérfræðings sem eigi í samskiptum við álfa og huldufólk en hún hafi upplýst að ekki væri reimt í eyjunni. Þar byggju aftur á móti álfar. Þeir væru afar skilningsríkir um mikilvægi framkvæmdarinnar og myndu halda sig til hlés eða færa sig um set meðan á framkvæmdum stendur.
„Við viljum passa upp á það að það sé góð ára í verkefninu,“ segir Höskuldur.
„Mörgum finnst þetta nú svona asnalegt og vitlaust, en það er bara svo margt í þessum heimi sem við vitum ekki um,“ segir Haraldur.
Heimild: Ruv.is