
Plata úr klæðningu var við það að losna utan af hinum svokallaða Sundaboga, bogahúsinu við Sundagarða 2, í rokinu í dag.
Eignaumsjón, sem er með húsið í umsjón, taldi að bregðast þyrfti við til að koma í veg fyrir frekara tjón og slys á fólki. Var slökkviliðið kallað út til að aðstoða við verkið.
Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir fjóra menn frá einni stöð hafa verið senda á einum dælubíl og einum körfubíl, enda var klæðningin að losna af fimmtu hæð hússins.
Aðgerðin gekk vel og var platan fest á sinn stað að sögn Lárusar.

Mikill vindhraði og snarpar hviður
Gul viðvörun er vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu til klukkan 22 í kvöld. Vindhraði hefur verið 13-20 metrar á sekúndu og með snörpum vindhviðum, hvassast vestast.
Veðurstofan hvetur fólk til að tryggja lausamuni utandyra til að forðast foktjón. Þá er spáð hárri ölduhæð og talsverðum áhlaðanda. Þar sem einnig er stórstreymt geti sjór gengið á land og valdið staðbundnu tjóni.
Heimild: Mbl.is