Home Fréttir Í fréttum „Svo hvarf þakið bara“

„Svo hvarf þakið bara“

24
0
Bílskúr nágrannans tókst á loft og gjöreyðilagðist í veðrinu um helgina. Skjámynd/Myndskeið Ivars Mortens Skagen

„Við heyrðum háan hvell og svo hvarf þakið bara.“ Þessi lýsing Ivars Mortens Skagen í Oppdal í Noregi er ein fjölmargra sem norskir fjölmiðlar hafa haft eftir landsmönnum um steinballarsteytinginn Amy sem herjað hefur á Vestur-Evrópu síðustu daga og varð að mannskaðaveðri þegar Íri á fimmtugsaldri lést í Letterkenny í Co Donegal um helgina auk þess sem í Frakklandi drukknaði maður og annar lést er tré féll á bifreið hans.

Í Skotlandi mældist vindhraði mestur 43 metrar á sekúndu og voru 200.000 íbúar þar í landi án rafmagns á meðan veðurofsinn var sem mestur.

„Ég hef aldrei upplifað nokkuð þessu líkt,“ sagði Helga Marie Sesaker við norska ríkisútvarpið NRK sem varð ekki um sel þegar bílskúr nágranna hennar tókst á loft í veðurhamnum í Oppdal en það var fyrrnefndur Skagen sem náði myndskeiði á síma sinn af skúrnum á flugi.

Þjóðvarðaliðið kallað út

„Þetta gerðist hratt um sjöleytið í morgun,“ sagði Skagen við NRK á laugardaginn, þann dag sem Amy geisaði hve harðast í Noregi, „allur skúrinn var farinn á 15 til 20 sekúndum,“ sagði hann um atburði sem gerðust rétt áður en hann sneri sér að morgunverðinum á ný með sonum sínum.

Þá vildi ekki betur til en svo að þakið fauk af húsi Skagen-fjölskyldunnar í miðjum morgunverði en engan sakaði þó sem betur fer. „Strákunum mínum þremur varð felmt við en enginn okkar meiddist sem betur fer […] Vatnið streymir hér um allt og þetta er dálítið dapurlegt en þetta eru bara veraldlegir hlutir,“ sagði fjölskyldufaðirinn æðrulaus.

Hátt í 30 íbúum Oppdal, sem er tæplega 8.000 íbúa sveitarfélag í Þrændalögum, var gert að rýma heimili sín um helgina af öryggisástæðum, vegum var lokað þar og þjóðvarðaliðið kallað út til að gæta öryggis almennings. „Hér hefur ýmislegt gerst, lausamunir hafa fokið og þeir geta skemmt bíla, slasað fólk og gert annan óskunda,“ sagði Torgeir Nyseter talsmaður þjóðvarðaliðsins við NRK í veðurofsanum sem nú er genginn yfir svo Norðmenn geta snúið sér aftur að hefðbundnum haustlægðum en þeirra má vænta á færibandi næstu vikurnar.

Heimild: Mbl.is