Home Fréttir Í fréttum Samið við Þrótt ehf. um vinnu á Sementsreit á Akranesi

Samið við Þrótt ehf. um vinnu á Sementsreit á Akranesi

9
0
Fannar Helgason hjá Þrótti og Haraldur Benediktsson bæjarstjóri skrifa undir samninginn. Mynd: Akranes.is

Akraneskaupstaður, Veitur, Ljósleiðarinn og Míla skrifuðu í vikunni undir samning við Þrótt ehf. á Akranesi um vinnu við gatnagerð, jarðvegsskipti og lagnir á hluta af Sementsreit.

Tilboð Þróttar í verkið hljóðaði upp á rúmlega 298 milljónir króna en kostnaðaráætlun var rúmlega 401 milljón. Fagurverk ehf. bauð einnig í verkið en tilboð þeirra hljóðaði upp á um 383 milljónir.

Um er að ræða jarðvegsskipti undir götur, lagningu veitukerfa og fjarskiptalagna í vesturhluta reitsins og lagningu hitaveitu og raflagna í austurhluta reitsins. Einnig þarf að fjarlægja hluta af steyptum byggingum á Mánabraut 20, þ.e. verkstæði og dreifistöð.

Fyrir Akraneskaupstað felst verkið fyrst og fremst í jarðvegsskiptum á Sementsbraut og Sleipnisgötu, niðurrif og förgun á fyrrnefndri spennistöð og verkstæði og lagningu stofna fyrir snjóbræðslu í gangstéttum.

Verklok alls verksins eru áætluð þann 25. september árið 2026.

Heimild: Akranes.is