Home Fréttir Í fréttum Íbúðaverð lækkar að raunvirði

Íbúðaverð lækkar að raunvirði

41
0
Á tveimur af síðustu þremur árum hefur íbúðaverð á landinu lækkað í verði að raunvirði. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Um þriðjungur nýrra íbúða hefur selst undir ásettu verði undanfarna mánuði en hvað varðar aðrar íbúðir hefur hlutfallið verið rúmlega 70%.

Það sem af er ári hefur vísitala íbúðaverðs lækkað um 2,5% að raunvirði og er lítill munur á þróuninni á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar. Er þetta töluverð breyting frá árinu í fyrra þegar íbúðaverð hækkað að raunvirði um 5,5% á landinu öllu.

Þegar árshækkanir frá janúar 2020 eru skoðaðar sést að langmesta hækkunin var árið 2021 en þá hækkaði vísitala íbúðaverðs um tæp 15% að raunvirði. Árið eftir, eða 2022, hélt verð áfram að hækka. Það ár var töluverður munur á þróuninni á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni hækkaði íbúðaverð um um tæp 11% að raunvirði samanborið við 2% hækkun á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2023 lækkaði íbúðaverð síðan um ríflega 2% að raunvirði á landinu öllu.

Skjáskot af Vb.is

Á fyrstu átta mánuðum yfirstandandi árs hefur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 3,6% að raunvirði en íbúðir í fjölbýli hafa lækkað um 1,6%. Í fyrra hækkaði sérbýli um tæp 3% í verði að raunvirði en íbúðir í fjölbýli hækkuðu um tæp 7%.

Frá janúar 2020 til september 2025 hefur íbúðaverð hækkað um 23% raunvirði. Aftur á móti nemur nafnverðshækkunin á þessu tímabili 73%. Ástæðan fyrir þessum mun er þrálát verðbólga.

Skjáskot af Vb.is

Tekur lengri tíma að selja
Í riti Seðlabankans er fjallað um birgðatíma íbúða en það er mælikvarði á hversu langan tíma tæki að selja þær íbúðir, sem eru á sölu, ef söluhraðinn helst óbreyttur. Hann er reiknaður sem meðalfjöldi íbúða til sölu í tilteknum mánuði deilt með fjölda kaupsamninga í sama mánuði.

„Birgðatími íbúða á höfuðborgarsvæðinu var um fimm mánuðir í ágúst og hafði þá lengst um tvo mánuði frá því ári áður,” segir í ritinu. „Munur á birgðatíma nýbygginga og annarra íbúða hefur aukist hratt síðustu mánuði. Birgðatími nýrra íbúða var um 14 mánuðir í ágúst, rúmlega sjö mánuðum lengri en í sama mánuði 2024. Birgðatími annarra íbúða er hins vegar mun stöðugri. Hann mældist rúmlega þrír mánuðir í ágúst og hafði þá lengst um mánuð á milli ára.”

Skjáskot af Vb.is

Söluþrýstingur íbúða
Þrátt fyrir fjölgun eigna á sölu og lengri birgðatíma nýrra íbúða er enn ekki að sjá merki um mikinn söluþrýsting íbúða ef mið er tekið af söluverði þeirra í samanburði við ásett verð.

Samkvæmt Seðlabankanum er hlutfall íbúða sem seljast undir ásettu verði nálægt langtímameðaltali og á það við um bæði nýjar og eldri íbúðir.

„Um þriðjungur nýrra íbúða hefur selst undir ásettu söluverði undanfarna mánuði en hvað varðar aðrar íbúðir hefur hlutfallið verið rúmlega 70%,” segir í riti Seðlabankans. „Þetta bendir ekki til þess að tregleg sala nýbygginga sé eingöngu til komin vegna slaknandi eftirspurnar. Seljendur nýbygginga virðast halda jafn fast við verðlagningu sína og áður og taka sér þann tíma sem þarf til að selja á ásettu verði. Vafalítið skiptir sterk fjárhagsstaða byggingageirans þar máli.”

Heimild: Vb.is