Framkvæmdir standa yfir við gerð nýs hringtorgs á mótum Hringvegar og Lónsvegar við bæjarmörk Akureyrarbæjar og Hörgársveitar. Áskorun hefur verið að sinna framkvæmdum í nánd við mikla umferð en vegurinn er einn sá umferðarþyngsti á Norðurlandi.

Verkið ber heitið Hringvegur (1) hringtorg við Lónsveg og felst í gerð hringtorgsins, auk vegtenginga við það. Innifalið í verkinu er gerð á nýju ræsi fyrir Lónsá undir Hringveg en það mun liggja þvert undir nýja hringtorgið. Einnig er innifalið í verkinu gerð göngustíga sem og gerð nýrrar aðkomugötu frá Lónsvegi að lóð ÁK-smíði, vestan við Hringveg. Jafnframt verður endurgerð tenging að lóð Lónsbakka austan við Hringveg.

Breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja er stór þáttur í framkvæmdinni, meðal annars færsla og nýlagnir hitaveitu, strengja götu- og stígalýsingar og jarðvinnu vegna lagningar ídráttarröra rafveitu- og fjarskiptalagna.
Umferðarþungi er mikill á þessum vegkafla sem liggur á mörkum tveggja sveitarfélaga, annars vegar Akureyrarbæjar og hins vegar Hörgársveitar en sveitarfélagsmörkin liggja eftir Lónsá.
Meðalumferð á dag yfir árið (ÁDU) er 5.100 bílar á sólarhring norðan Lónsvegar og 5.800 bílar sunnan Lónsvegar. Á sumrin bætast um 2.000 bílar við á hverjum sólarhring. Á Lónsveginum er umferðin um 520 bílar á sólarhring yfir árið.
Verkinu er skipt í þrjá megin fasa og byrjaði verktakinn, Nesbræður ehf. Akureyri, á fasa tvö í byrjun júlí eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Einn af stærri verkþáttum framkvæmdarinnar er að rífa gamalt ræsi sem Lónsáin hefur runnið í gegnum og setja nýtt ræsi í staðinn. Það verkefni var klárað í sumar og búið er að leggja út allt burðarlag en stefnt var á að malbika í byrjun september.
Helsta áskorunin við verkið hefur verið umferðarþunginn um svæðið. Þó hefur gengið ágætlega að hliðra umferðinni eftir framvindu verksins en vegfarendur mættu þó gæta betur að hraðatakmörkunum.
Áætlað er að verkinu ljúki í lok október á þessu ári.
Heimild: Vegagerðin.is