Home Fréttir Í fréttum Nýr vegur í Reyðarfirði færður nær sjónum

Nýr vegur í Reyðarfirði færður nær sjónum

12
0
Mynd: Austurfrett.is

Vegagerðin hefur lagt fram til umsagnar tillögur um nýja legu þjóðvegarins í botni Reyðarfjarðar. Vegurinn er færður nokkru utar en hann er í dag en gera þarf á hann tvær nýjar brýr.

Samkvæmt tillögunni mun vegurinn framvegis liggja eftir leirunum í botni Reyðarfjarðar. Beygt verður út úr hringtorginu innan við bæinn og keyrt niður að iðnaðarsvæðinu Hjallaleiru og áfram í gegnum það.

Byggður verður nýr vegur á 1,7 km kafla. Nýjar brýr verða gerðar bæði á Norðurá og Sléttuhá og nýtt ræsi á Sléttuá. Sléttuárbrúin verður 54 metra löng en Norðurárbrúin 14 metrar. Fram kemur að ýmsir möguleikar hafi verið skoðaðir, til dæmis að veita Norðurá í Sléttuá. Frá því var horfið eftir að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar bentu til þess að slíkt hefði neikvæð áhrif á lífríkið.

Engar undanþágur á brúnni yfir Sléttuá

Tími þykir vera kominn á vegagerðina og í greinargerð Vegagerðarinnar er vísað til ítrekaðra bókana bæjarstjórnar Fjarðabyggðar þar um. Aðalástæðan er brúin yfir Sléttuá sem að stofni er frá árinu 1952.

Hún er einbreið og stendur hærra en vegurinn sem þýðir að hún myndar eiginlega blindhæð. Hún er umferðarmesta einbreiða brúin sem eftir er á Hringveginum. Áætlað er að 970 bílar fari yfir hana að meðaltali á hverjum degi, þar af 1.250 að meðaltali á sumardegi. Talið er að 7-10% umferðarinnar séu þungaflutningar.

Brúin er mikill flöskuháls fyrir þá því á henni er 20 tonna vagnþungi. Engar undanþágur eru gefnar frá honum. Það þýðir að fara þarf með stærri farartæki yfir Sléttuá á vaði.

Teikning af nýju veglínunni og nágrenni frá Vegagerðinni.

Nýr vegur haustið 2028?

Áætlað er að framkvæmdirnar kosti 1,4 milljarða króna. Samkvæmt drögum að samgönguáætlun 2024-38 var samtals 1,3 milljarður áætlaður í vegagerðina árin 2027 og 2028. Í tillögunum nú er gert ráð fyrir að vegurinn verði opnaður haustið 2028. Þó er þar að finna setningu um að vegna ástands vegarins hafi verið til skoðunar að flýta framkvæmdinni. Gert er ráð fyrir að brúargerðin skapi um 20 störf í allt að tvö ár.

Núverandi þjóðvegur verður afmáður að mestu. Núverandi brú fær þó væntanlega að standa áfram því bændur á Sléttu hafa óskað eftir að fá að nota hana til að komast á milli túna.

Vegagerðinni fylgir ný tenging við veginn upp Þórdalsheiði. Tækifærið verður nýtt til að taka af krappa beygju rétt við Sléttu þar sem slys hafa orðið.

Með gögnunum nú leitar Vegagerðin eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort gera þurfi umhverfismat á framkvæmdinni. Skipulagsstofnun leitar því eftir áliti lögaðila, svo sem sérfræðistofnana á því. Frestur til athugasemda er til 20. október.

Heimild: Austurfrett.is