Home Fréttir Í fréttum Hönnun hjúkrunarheimilis á leið fyrir dóm

Hönnun hjúkrunarheimilis á leið fyrir dóm

225
0
Mynd: Gaflari.is
Eigandi arkitektastofunnar STH teiknistofu ætlar að kanna möguleika þess að stöðva framkvæmdir við hönnun og uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis við Sólvang í Hafnarfirði. Hann segir bæjarfélagið hafa tekið „ranga og tilhæfulausa ákvörðun,“ þegar ákveðið var að hlíta úrskurði kærunefndar útboðsmála og semja við aðra arkitektastofu. STH átti lægsta tilboðið þegar hönnunin var boðin út.

Þetta kemur fram í bréfi sem lögfræðistofan Lögmenn Thorsplani sendu Hafnarfjarðarbæ og tekið var fyrir á fundi bæjarráðs í dag. Hafnarfjarðarbær ákvað um miðjan febrúar að ganga til samninga við STH teiknistofuna um hönnun hjúkrunarheimilisins eftir að stofan átti lægsta tilboðið.

<>

Arkitektastofan Úti og inni kærði þá ákvörðun  til kærunefndar útboðsmála sem féllst á kröfur stofunnar –  STH hefði ekki uppfyllt kröfur sem gerðar höfðu verið um hönnunarreynslu.  Bærinn ákvað að una þeirri ákvörðun og samdi í staðinn  við Úti og inni um hönnunina.

Í bréfi lögmannsstofunnar kemur fram að sú ákvörðun hafi verið röng, tilhæfulaus og til þess fallin að valda skjólstæðingi þeirra tjóni – henni verði vísað til dómstóla enda hafi grundvöllur hennar allur verið mjög ótraustur. Ljóst sé að skjólstæðingur þeirra hafi orðið fyrir miklu tjóni á meðan rekstri málsins hafi staðið – bærinn beri alla ábyrgð og áskilji skjólstæðingur þeirra rétt til bóta úr hendi bæjarins vegna þessa tjóns.

Skrifað var undir samninga um hönnun hjúkrunarheimilsins í síðustu viku en stefnt er að því að það verði tilbúið í apríl 2018.

Heimild: Ruv.is