Íslenskir gluggaframleiðendur þurfa að sýna fram á svokallaða CE-merkingu, sem fæst ekki á Íslandi, til að mega auglýsa vörur sínar og taka þátt í opinberum útboðum.
„Stjórnvöld eru bara að sjá til þess að hér verður ekkert framleitt,“ segir Eiríkur Guðberg sem fer fyrir nýstofnuðu félagi gluggaframleiðenda.
Íslenskir gluggaframleiðendur segja stjórnvöld vera á góðri leið með að ganga af iðnaðinum dauðum. Þeir mega hvorki auglýsa vörur sínar né taka þátt í opinberum útboðum nema þeir geti sýnt fram á að gluggar þeirra séu með svokallaða CE-merkingu. Vandinn er sá að stjórnvöld bjóða ekki upp á slíka vottun hér á landi, heldur þurfa framleiðendur að senda gluggana til útlanda, sem getur kostað margar milljónir.
Kastljós kynnti sér málavexti og ræddi við Þórunni Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem setur framleiðendum stólinn fyrir dyrnar.
Heimild: Ruv.is