Home Fréttir Í fréttum Innviðaráðherra spyr hvort rétt sé að gera Fjarðagöng á undan Fjarðarheiðargöngum

Innviðaráðherra spyr hvort rétt sé að gera Fjarðagöng á undan Fjarðarheiðargöngum

4
0
Mynd: Austurfrett.is

Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, neitaði að gefa nokkur loforð um forgangsröðun jarðganga á opnum fundi á Egilsstöðum í gær. Hann skýrði hins vegar frá því að í ráðuneytinu væri til skoðunar hvort rétt væri að fara á undan í Fjarðagöng, frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð, eða Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Héraðs.

Eyjólfur gaf tóninn strax í inngangsræðu sinni, þegar hann bar kostina tvo saman. Hann talaði um að Fjarðarheiðargöngin hefðu verið lengst í undirbúningi, til skoðunar í 40 ár. Þau kostuðu hins vegar í dag 60 milljarða og bar þau saman við Dýrafjarðargöng, sem eru 3 km og kostuðu 12 milljarða, sem sýndi hversu stór þau væru, bæði í lengd og kostnaði.

Á sama tíma talaði hann um að Fjarðagöngin sköpuðu hringleið sem gerðu allt svæðið að samþættu atvinnu- og þjónustusvæði. Þau tengdu meðal annars Fljótsdalshérað betur við sjúkrahúsið í Neskaupstað og í báðum tilfellum væri vetrareinangrun Seyðisfjarðar rofin.

Ítrekað spurður út í efndir nýrra og gamalla loforða

Þessi orð féllu vægast sagt í grýttan jarðveg hjá fjölda Seyðfirðinga sem áttu sinn þátt í að fylla salinn á Hótel Héraði í gær sem svo að segja strax stofnuðu til orðaskipta við ráðherrann. Í fyrstu umferð spurninga úr sal var spurt um hvað hindraði framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng, sem í dag eru einu fullhönnuðu jarðgöngin á Íslandi sem teljast tilbúin til útboðs.

Eins var vitnað til fyrirheita í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og vilyrða, sem gefin voru við tilurð Múlaþings, um að farið yrði í Fjarðarheiðargöng og Eyjólfur spurður út í afstöðu sína til hringtengingar Austfjarða sem felur í sér bæði göngin. Þessar spurningar voru ítrekaðar í öðrum fyrirspurnaumferðum og jafnvel með frammíköllum síðar á fundinum.

Sammála hringtengingu en hún fæst ekki bara með Fjarðarheiðargöngum

Hann svaraði því að hann væri sammála því að hringtengingin væri mikilvæg en hún fengist ekki bara með Fjarðarheiðargöngum, Fjarðagöngin þyrfti líka. Hann sagðist hafa ítrekað spurt, meðal annars á fundi með stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fyrr um daginn, um hver þjóðhagsleg rök væru fyrir Fjarðarheiðargöngunum umfram Fjarðagöngin, en fengið fá svör. Eyjólfur sagðist halda að krafan um Fjarðarheiðargöng byggðist meðal annars á ótta um að þau kæmu ekki ef farið væri í Fjarðagöngin fyrst.

„Ég er algjörlega sammála hringtengingunni, en hún kemur ekki bara með Fjarðarheiðargöngum. Spurningin er hvar á að byrja. Fjórðungssjúkrahúsið er í Neskaupstað,“ sagði hann þegar hann svaraði eftir þriðju umferð spurninganna.

„Ber ekki ábyrgð á loforðum ráðherra Framsóknarflokksins“

Eyjólfur margsagði á fundinum að hann bæri ekki ábyrgð á loforðum fyrri ráðherra eða ríkisstjórna. Hann staðfesti að hafa heyrt að Fjarðarheiðargöngum hefði verið lofað við sameininguna en sagði að það hefði „bara verið munnlegt, ekki skriflegt“ loforð. Með því gaf hann í skyn að ríkið væri ekki bundið af því en sagði þó öðru sinni að hann legði áherslu á að ríkið stæði við loforð sem gefin væru við sameiningar.

„Ég ber ekki ábyrgð á loforðum ráðherra Framsóknarflokksins,“ sagði Eyjólfur einu sinni. Hann vísaði einnig ítrekað til þess að á síðasta kjörtímabili hefði engin samgönguáætlun verið samþykkt og fjárlaganefnd fyrir kosningar reddað vegagerð þessa árs. Í gildi er hins vegar samgönguáætlun 2020-2034, samþykkt af Alþingi 2019. Eyjólfur var spurður út í stuðnings hans flokks, Flokks fólksins, við hana. Hann staðfesti að lokum að hún hefði verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, þar með talið atkvæði Ingu Sæland, formanns flokksins. „Formaðurinn sagði já. Ég var að fá tölurnar,“ sagði Eyjólfur sem hefur setið á þingi frá 2021.

Jákvæðni í samfélaginu fyrir gjaldtöku

Eyjólfur sagðist stuðningsmaður jarðganga, þau ættu öll rétt á sér og tók dæmi um þau jákvæðu áhrif sem Bolungarvíkurgöng hefðu haft, þar væri bæði helsta laxasláturhús Vestfjarða og mjólkurbúið Arna. „Þetta hefði ekki gerst án ganga. Um leið og þau koma fylgja gríðarleg tækifæri.“ Hann bar einnig nokkrum sinnum saman Ísland með 11 göng og Noreg með 1184 göng. Hann sagði þann mun ekki skýrðan með ríkidæmi.

Þegar fundargestir fóru að bera saman Ísland og Færeyjar greip hann á móti til þess að benda á hversu litlar eyjarnar væru og hversu mikil umferð væri um þeirra stærstu göng samanborið við þau stærstu hérlendis. Hann talaði um að Vaðlaheiðargöng „hefðu farið í fangið á ríkinu því áætlanir stóðust ekki. Þetta var pólitísk ákvörðun, það vissu allir að Excel-skjölin stæðust ekki.“

Eyjólfur, sem er þingmaður Norðvesturkjördæmis, talaði nokkrum sinnum um að 80% landsmanna byggju milli Hvítánna. Utan þeirra væru samgöngumál byggðamál, ríkið þyrfti að borga en sagðist einnig telja hægt að fá lífeyrissjóði að borðinu og að taka veggjöld. Hann sagði „jákvæðni í samfélaginu“ fyrir gjaldtöku.

Ætlar ekkert að sýna á spilin fyrr en samgönguáætlun verður kynnt

Eyjólfur var þráspurður út í hvernig hann ætlaði að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð á kjörtímabilinu, ef ekki væri byrjað strax á einu göngunum sem tilbúin væru í útboð. Hann svaraði með að vísa til samgönguáætlunar sem hann leggur fram í haust. „Ég mun tilkynna þetta þegar ég mæli fyrir samgönguáætlun í lok október eða nóvember. Ég hef engar upplýsingar, engin loforð hér, ekki fyrr en í þingsal. Alþingi tekur síðan endanlega ákvörðun.“

Hann var tvisvar spurður út í hönnunar- og rannsóknatíma Fjarðaganga. Fyrst svaraði Eyjólfur 2-3 ár, en í seinna skiptið 3-5 ár. Hann var líka spurður út í hvort göng yrðu boðin út í vetur. Hann svaraði að það ylti á fjárveitingu. Hann fór síðan að tala um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að auka fjármagn til viðhalds vega.

„Alls staðar er krafa um bætta innviði í vegasamgöngum. Við höfum ekki sett nóg í það á undanförnum árum,“ sagði Eyjólfur. Hann kom á fundinum inn á að ríkisstjórnin ætlaði sér að auka útgjöld til vegamála úr 0,6% í 1% af vergri landsframleiðslu. „Ég vonast til að landsmenn upplifi að sleginn er nýr tónn og kraftur í samgöngumálum.“

Heimild: Austurfrett.is