Home Fréttir Í fréttum Fresta byggingu nýrrar heilsugæslu á Akureyri um minnst fimm ár

Fresta byggingu nýrrar heilsugæslu á Akureyri um minnst fimm ár

4
0
Heilsugæslan á Akureyri flutti úr Amaro-húsinu við göngugötuna í fyrra, í verslunarkjarnann Sunnuhlíð. RÚV – Ólöf Rún Erlendsdóttir

Byggingu nýrrar heilsugæslu á Akureyri hefur verið frestað um fimm ár. Stefnt hefur verið að því síðan 2019 að reisa aðra heilsugæslu í bænum.

Byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar á Akureyri hefur verið frestað um fimm ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Ástæðan sé endurmat á þjónustunni, aukin ánægja skjólstæðinga og starfsfólks.

„Þjónustukönnun sem gerð var á meðal skjólstæðinga sýnir að ánægja með þjónustuna og starfsánægja hefur aukist mikið, sem sýnir að núverandi umgjörð sem sköpuð var með nýrri og glæsilegri heilsugæslustöð í Sunnuhlíð ásamt starfsemi á Hvannavöllum hefur gefið mjög góða raun“ segir í tilkynningunni.

Endurmeta þörfina fyrir aðra byggingu eftir fimm ár

Þá sé ástæða til að staldra við og endurmeta stöðuna að fimm árum liðnum.

Árið 2019 gaf ráðuneyti það út að tvær heilsugæslustöðvar þyrftu að vera starfandi í bænum, og var þá horft meðal annars til íbúafjölda og dreifingar byggðar. Þá var heilsugæslan í Amaro-húsinu í miðbæ Akureyrar og löngu orðið ljóst að það væri orðið of lítið til að þjónusta ríflega 20 þúsund manns.

Í vor var heilsugæslan flutt í endurbætt húsnæði í verslunarkjarnanum Sunnuhlíð. Undanfarin ár hefur verið óljóst hvar, hvenær og eins hvort verði af byggingu annarar heilsugæslu í bænum. Eftir opnunina í Sunnuhlíð hafa ráðamenn gefið loðin svör um framhaldið.

Þá hefur verið nefnt að byggja stöðina á reit þar sem áður var tjaldsvæði við Þórunnarstræti, við Kjarnagötu sunnarlega í bænum eða skammt undan við Naustagötu og svo virtist lengi standa til að stöðin yrði við Sjúkrahúsið á Akureyri.

Eins hafa forsvarsmenn Heilsuverndar lýst yfir áhuga á rekstri heilsugæslustöðvar í bænum. Ekkert hefur heyrst af þeim áformum síðustu misseri.

„HSN telur því skynsamlegt að staldra við, styrkja núverandi faglega þróunarvinnu og þjónustu sem og stuðla að auknu jafnvægi í gæði þjónustunnar í stað þess að kljúfa í tvennt klíníska þjónustu á þessu stigi.“

Nýtt húsnæði í Sunnuhlíð hafi verið mikil bót

Klínísk starfsemi HSN er nú í nýju húsnæði í Sunnuhlíð en þess utan leigir HSN um 1.500 fm af húsnæði undir sálfélagslega þjónustu, heimahjúkrun, ME teymi og skrifstofustarfsemi á Akureyri.

Í tilkynningunni segir að unnið verði að því að flytja heimahjúkrun og heimaþjónustu undir sama þak. Sálfélagslega þjónustan, sem sinnir öllu Norðurlandi, verður áfram á Hvannavöllum og einstaka starfsfólk verður áfram staðsett á öðrum starfsstöðvum HSN. Forstjóri segir að lögð verði áhersla á að auglýsa sem flest störf óstaðbundin á starfssvæðinu.

„Þá hafa nýjar vinnuaðstæður og faglegt starf laðað að aukinn fjölda af nemum sem mikilvægt er að hafi bakland í öflugum hópi fagfólks. Jafnframt er starfsumhverfið í mikilli þróun, en nýlegar breytingar eins og styttri vinnuvika getur reynst áskorun þar sem fleiri eru fjarri á hverjum tíma og er því hagfelldara að hafa eininguna stærri til að vera betur í stakk búin að tryggja samfellu í þjónustu við skjólstæðinga“, segir í tilkynningu HSN.

Heimild: Ruv.is