Home Fréttir Í fréttum Ætla að reisa að 2-3.000 fermetra viðbyggingu við Þjóðleikhúsið

Ætla að reisa að 2-3.000 fermetra viðbyggingu við Þjóðleikhúsið

24
0
Logi Einarsson greindi frá áformunum á tröppum Þjóðleikhússins í gær. RÚV – Guðmundur Bergkvist

Gert er ráð fyrir að kostnaður við bygginguna nemi um tveimur milljörðum króna. Stefnt er að því að viðbyggingin verði tekin í notkun á 80 ára afmæli Þjóðleikhússins, árið 2030.

Ráðist verður í gerð viðbyggingar við Þjóðleikhúsið sem ætlað er að hýsa sýningar- og æfingarými. Stefnt er að því að viðbyggingin verði tekin í notkun 2030, á 80 ára afmæli Þjóðleikhússins. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, færði þjóðleikhússtjóra Magnúsi Geir Þórðarsyni viljayfirlýsingu þess efnis við setningu Menningarnætur í gær.

„Yfirlýsingin kunngerir vilja ríkisstjórnarinnar til þess að ráðast í gerð viðbyggingar við Þjóðleikhúsið sem mun styrkja starfsemi þess svo um munar og leysa úr fjölmörgum, áratugagömlum úrlausnarefnum með fullnægjandi hætti,“ segir í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu.

Tveggja milljarða fjárfesting

Samkvæmt frumgreiningu ráðuneytisins er gert ráð fyrir að viðbyggingin komi til með að kosta tvo milljarða. Áætlað er að hún verði um 2-3.000 fermetrar að stærð. Byggingin á að hýsa leiksvið og geta tekið á móti um 250-320 áhorfendum. Þar verður einnig æfingaaðstaða og geymsla fyrir búninga- og leikmunasafn hússins.

„Það er mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli vera einhuga um þessa skynsamlegu og löngu tímabæru fjárfestingu. Með þessari ákvörðun er Þjóðleikhúsinu gefinn kostur á að vaxa og dafna, auka sértekjur sínar og gera reksturinn hagkvæmari. Þetta er viðeigandi gjöf til þjóðarinnar á þessu tímamótaári lykilstofnunar í íslensku menningarlífi,“ er haft eftir Loga í tilkynningu leikhússins.

„Langþráður draumur um nýtt leiksvið“

Þar segir að íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins hafi þrefaldast frá árinu 1950 þegar húsið var tekið í notkun. Aðstaðan hafi aftur á móti lítið breyst. Með viðbyggingunni sé því leyst úr nokkrum aðkallandi málum í einu.

„Við hér í Þjóðleikhúsinu erum hreinlega í skýjunum með þær frábæru fréttir að langþráður draumur um nýtt leiksvið og aðrar úrbætur í húsnæðismálum Þjóðleikhússins verði að veruleika. Byggingin markar í raun merkustu tímamót í 75 ára sögu Þjóðleikhússins, því að þetta er í fyrsta sinn frá því að leikhúsið var vígt sem nýtt leiksvið er byggt,“ er haft eftir Magnúsi Geir leikhússtjóra í tilkynningunni.

Heimild: Ruv.is