
113 ára gömul kirkja í nyrstu borg Svíþjóðar verður flutt fimm kílómetra á nýjan stað. Ferðin tekur tvo daga og var fleiri ár í undirbúningi.
Eitt helsta kennileiti nyrstu borgar Svíþjóðar, kirkjan í Kiruna, var flutt úr stað í heilu lagi í gær í einhverri flóknustu slíkri aðgerð fyrr og síðar.
Kirkjunni verður komið fyrir á öðrum stað í borginni, þar sem nýr miðbær hefur risið síðastliðin áratug.
Þessari rúmlega aldargömlu kirkju var komið fyrir ofan á stærðarinnar vagn og verður henni ekið um fimm kílómetra á nýja staðinn í gær og í dag. Þetta stutta ferðalag tekur tvo daga þar sem meðalhraði kirkjunnar verður lægri en 1 kílómetri á klukkustund.

AP – Malin Haarala
Bygging Kiruna-kirkjunnar hófst árið 1909 og lauk 1912. Hún er 35 metra há, 40 metra breið og vegur um 672 tonn. Kirkjan er klædd með rauðu timbri sem gefur henni einkennandi yfirbragð og er hún ein stærsta timburbygging sem enn stendur í Svíþjóð. Kirkjan var valin vinsælasta bygging Svíþjóðar árið 2001 í könnun sænsku ferðamálastofunnar, í flokki bygginga frá því fyrir 1950.

AP/TT News Agency – Fredrik Sandberg
Innra byrði kirkjunnar er það sem menn óttast að geti einna helst farið illa út úr flutningunum. Altarið er í Art Nouveau-stíl og er ríkulega skreytt og altaristaflan þykir ein sú fallegasta í Svíþjóð. En svo lengi sem verkfræðingar halda sig innan hraðatakmarkana er talið öruggt að verðmætt innra byrðið hljóti ekki skaða.
Kirkjan hefur staðið í vesturhluta miðbæjar Kiruna frá því hún var reist en verður nú færð lítið eitt í austurátt, til þess að vernda hana frá sístækkandi járnnámu sem liggur við bæjarmörkin. Samkvæmt sænskum lögum er óheimilt að stunda námugröft beint undir mannvirkjum og eftir hundrað ára starfsemi er náman farin að teygja sig sífellt meira inn í bæinn.
LKAB, sem á og rekur námuna, er stærsti vinnuveitandi Kiruna-borgar og stendur straum af kostnaðinum við flutningana, sem talið er að nemi 10 milljörðum sænskra króna (128 milljarða íslenskra króna).

EPA – Fredrik Sandberg
Flutningarnir hafa verið í undirbúningi í fleiri ár og eru aðeins einn hluti stærri flutninga á nær öllum gamla miðbæ Kiruna á nýjan stað. Kiruna-kirkjan er ekki fyrsta kennileitið sem flutt er í heilu lagi þar á milli, en fjölmargar byggingar hafa verið rifnar en síðan reistar að nýju í upprunalegri mynd.
Vegurinn sem kirkjunni verður ekið um var breikkaður til að greiða fyrir flutningunum og öll skilti og allir ljósastaurar voru fjarlægðir. Gömul brú var meira að segja rifinn svo að hægt yrði að flytja kirkjuna, en hana átti hvort eð er að rífa á næstunni.
Á vef sænska ríkisútvarpsins má fylgjast með flutningunum í beinni útsendingu.
Heimild: Ruv.is