Home Fréttir Í fréttum Nýjar óbyggðar lóðir boðnar út í Þórsmörk

Nýjar óbyggðar lóðir boðnar út í Þórsmörk

19
0
Horft frá Krossá yfir í Langadal í Þórsmörk. – Alma Ómarsdóttir

Fleiri lóðir í Þórsmörk verða auglýstar til leigu á árinu auk þeirra sem ferðafélögin leigja undir skála sína. Engin risahótel verða byggð í Þórsmörk segir sveitarstjórinn.

Fljótlega verður samið við ferðafélögin um lóðaleigu í Þórsmörk. Byggðaráð Rangárþings eystra hefur samþykkt að semja við Ferðafélag Íslands, Útivist og Bandalag íslenskra farfugla um leigu á lóðum í Goðalandi, Emstrum og Þórsmörk. Sveitarfélögum er skylt að samkvæmt lögum að auglýsa eftir leigutökum innan þjóðlendumarka og þetta er í fyrsta sinn hjá Rangárþingi eystra.

„Samkvæmt lögum megum við bara nota það fé sem við fáum þar í tekjur sem sagt innan þjóðlendu,“ segir Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Rangárþings eystra, „og það verður notað í stígagerð og landvörslu og bara það sem til fellur innan þjóðlendunnar.“

Félögin, sem samið verður við, eru öll með starfsemi í þjóðlendunni og húsakost. Samgöngufyrirtækið Icelandia, sem hefur töluverð umsvif þarna líka, sótti líka um lóðir en fékk ekki. Frekari uppbygging er heimil samkvæmt deiliskipulagi en hún verður takmörkuð, segir Anton Kári:

„Það verður engin stór uppbygging í Þórsmörk. En á hverjum og einum stað eru aðeins heimildir til stækkunar en samt í núverandi mynd. Þetta eru skálasvæði og þetta verða ekki ferðaþjónustusvæði.“

Ekki má byggja í Langadal og Slyppugili. Mest má byggja í Húsadal og en minna í Básum.

„En hún er öll mjög lágstemmd.“

Það eru fleiri lóðir þarna, eruð þið að fara að auglýsa þær líka?

„Já, við komum til með að gera það núna á næstu mánuðum. Við flýtum okkur hægt og viljum vanda okkur. En það eru lóðir, það eru einar fimm lóðir í Húsadal sem eru óbyggðar sem við ætlum að auglýsa og einar þrjár eða fjórar minnig mig í Básum. Þetta eru litlar lóðir með mjög þrönga uppbyggingarskilmála. Mig minnir að á flestum sé heimilt að byggja um 120 fermetra. Þannig að það sér það líka hver og einn að það er ekki verið að byggja neinar stórbyggingar eða risahótel, sko.“

Húsakostur í Þórsmörk er kominn til ára sinna og þörf þykir á endurbótum og að bæta salerni og fleira. Skógræktin hefur byggt vel upp stíga og fleira þarna undanfarin ár, segir Anton Kári.

„Stígar og annað getur tekið við mun meira fólki en er þar í dag.“

Haldið þið að þið auglýsið lóðirnar núna fyrir áramótin?

„Já, ég reikna með því að við auglýsum fyrir áramót.“

Heimild: Ruv.is