Engin rafmagnsframleiðsla hefur verið í Vatnsfellsstöð frá byrjun þessa mánaðar vegna leka sem upp kom nærri inntaksmannvirkjum stöðvarinnar.
Að sögn Ragnhildar Sverrisdóttur upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar reyndist ástæða lekans sprunga í jarðlögum, þvert á inntaksskurð stöðvarinnar. Til þess að rannsaka lekann var nauðsynlegt að stöðva rennsli úr Þórisvatni inn í inntakslón virkjunarinnar, en einnig var botnrás þess opnuð til að tæma uppistöðulón stöðvarinnar.
Ragnhildur segir að bergið á svæðinu sé jarðfræðilega ungt og því hafi ávallt verið gert ráð fyrir atburði af þessum toga. Hún segir að starfsfólki sé engin hætta búin og engum mannvirkjum á svæðinu ógnað.
Heimild: Mbl.is