Stefna á byggingu íbúðabyggðar við Víkingaheima – “Kallar á opið og gagnsætt ferli”
Funaberg fasteignafélag ehf., sem skráð er í Garðabæ, stefnir á uppbyggingu íbúahverfis við Víkingaheima og hefur óskað samstarfs við Reykjanesbæ varðandi uppbygginguna.
Minnisblað varðandi málið var lagt fyrir á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar á dögunum og lögðu fulltrúar Umbótar og Sjálfstæðisflokks fram bókanir þar sem kallað er eftir opnu, gagnsæu ferli en ekki innanhússúrvinnslu þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum og misvægi.
Bókun Umbótar:
„Umbót er mótfallin því að málinu verði vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, þar sem slíkt tryggir ekki að réttu og faglegu ferli verði fylgt. Um er að ræða ráðstöfun á einu verðmætasta byggingarsvæði sveitarfélagsins, sem ekki er skipulagt fyrir íbúabyggð í aðalskipulagi.
Slík breyting kallar á opið, gagnsætt ferli en ekki innanhússúrvinnslu þar sem hætta er á hagsmunaárekstrum og misvægi. Það að ráðstafa svæði sem þessu, án útboðs og án fulls trausts stjórnsýsluferils, er með öllu óásættanlegt.
Umbót telur brýnt að málið verði stöðvað í núverandi mynd og að farið verði af stað með opið útboðsferli, sem tryggir jafnræði, gagnsæi og faglega meðferð í þágu almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna eins verktaka.
Umbót mun ekki styðja neina tillögu um áframhald málsins nema slíkt ferli verði tryggt.“
Bókun Sjálfstæðisflokks:
„Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir með Umbót um mikilvægi opins ferils varðandi uppbyggingu landsvæðis tengt Víkingaheimum sem nú er skilgreint sem opið svæði samkvæmt aðalskipulagi Reykjanesbæjar.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að hann samþykkir eingöngu að vísa til umhverfis- og skipulagssviðs (USK) þeim lið er snýr að aðalskipulagi, þ.e. hvort byggja eigi upp íbúðir á þessu opna svæði en ekki hver kemur að uppbyggingu eða hvernig verði staðið að uppbyggingu svæðisins. Einnig leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að USK horfi á Fitjarnar í heild sinni sem er ein af útivistarperlum Reykjanesbæjar.“
Bæjarráð samþykkti að vísa skipulagshluta málsins til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs.
Heimild: Sudurnes.net