Ólafur Finnbogason, fasteignasali hjá Mikluborg, segir dæmi um að húsbyggjendur hafi lækkað verð nýrra íbúða um nokkrar milljónir króna, jafnvel fimm til sex milljónir, til að örva söluna. Því fylgi enda fjármagnskostnaður að vera með margar óseldar íbúðir á lager.
Ólafur segir ágætlega ganga að selja nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem eru rétt verðlagðar. Ef nýjar íbúðir seljist hægt sé líklegasta skýringin að þær séu of dýrar.
Margar íbúðanna seldar
Máli sínu til stuðnings taldi Ólafur upp ellefu nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu en þar sé búið að selja hátt hlutfall íbúða.
Fjallað hefur verið um hluta þessara verkefna í umfjöllun Morgunblaðsins um sölu nýrra íbúða á þéttingarreitum í miðborg Reykjavíkur. Talning Ólafs nær hins vegar líka til Hamranessins í Hafnarfirði og til Bjarkarholts í Mosfellsbæ.
Bankamaður sem ræddi við Morgunblaðið í trausti nafnleyndar sagði fjárfesta og félög hafa keypt margar nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.
Einstaklingar í meirihluta
Spurður um þetta segir Ólafur að einstaklingar séu að baki langstærstum hluta kaupanna. Hann áætli að félög og fjárfestar séu að baki um 10% kaupanna. Rætt er við hann í blaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is