Búið er að leggja fyrri umferð klæðningar á nýuppbyggðan kafla á veginum inn í Stuðlagil. Verkstjóri segir lykilatriði að samstaða hafi náðst um að vinna veginn allan á næturvöktum vegna þeirrar miklu umferðar sem er inn að gilinu.
Í byrjun síðasta sumars hófust starfsmenn Héraðsverks handa við að byggja upp 4,7 km kafla á veginum frá Arnórsstöðum að eyðibýlinu Löngugerði. Í fyrra var lokið við 2,7 km af honum með klæðningu.
Í lok maí var þráðurinn tekinn upp aftur og fyrir tæpum tveimur vikum var fyrra lag klæðningarinnar sett á. Seinni lagið verður lagt síðar í þessum mánuði. Frágangi á svæðinu er nærri lokið, klárað verður að girða í kringum veginn í næstu viku.
Hefði ekki gegnið upp án næturvinnunnar
Það sem er sérstakt við verkið er að það hefur aðeins verið unnið á næturvöktum, vegna hinnar miklu umferðar sem er inn að Stuðlagili og þar sem nýi vegurinn er byggður beint ofan á gamla veginn.
„Við höfum verið á vöktum frá átta að kvöldi til átta að morgni. Í ár byrjuðu þær 26. maí og lauk þegar klætt var 24. júlí. Þetta verk hefði aldrei verið hægt að vinna öðruvísi, miðað við umferðina og samsetningu hennar,“ segir Viðar Hauksson, verkstjóri hjá Héraðsverki.
Vegavinnuflokkurinn var þó ekki laus við umferðina. „Það eru bílar á ferðinni þarna alla nóttina en þeir eru ekki margir. Umferðin dettur niður á milli níu og tíu á kvöldin. En yfir daginn er þarna bíll við bíl,“ segir hann.
Lykilatriði að starfsmennirnir voru tilbúnir í fyrirkomulagið
Viðar segist ekki hafa reynslu af því áður hjá Héraðsverki að aðeins sé unnið á næturvöktum. Að ýmsu þurfti að huga vegna þess, meðal annars var gerður sérstakur vinnustaðasamningur um kjör starfsmannanna. Mestu skipti þó að þeir voru tilbúnir í verkið.
„Verkið gekk eins og lagt var upp með og þar skipti sköpum þessi ákvörðun að vinna á næturnar. Þetta gerist þó aldrei án góðra manna sem voru tilbúnir að taka þátt í þessu með okkur. Það var ekki sjálfgefið.“
Starfsmennirnir sem lögðu veginn á Jökuldal færast nú í önnur verk en Héraðsverk reisir snjóflóðavarnagarða á bæði á Seyðisfirði og í Neskaupstað.
Undanfarin ár hefur verið unnið að því að bæta veginn inn að Stuðlagili. Árið 2022 var byggður upp og klæddur kaflinn frá Gilsá inn fyrir Arnórsstaði. Nú er eftir 4 km kafli inn að Hákonarstöðum.
Heimild: Austurfrett.is