Home Fréttir Í fréttum Reisa lengstu hengibrú í heimi til að tengja Sikiley við meginland Ítalíu

Reisa lengstu hengibrú í heimi til að tengja Sikiley við meginland Ítalíu

25
0
Matteo Salvini, samgöngu- og innviðaráðherra Ítalíu, skoðar líkan af brúnni. EPA – ANGELO CARCONI

Stjórnvöld binda vonir við að ný brú gæði efnahag Sikileyjar og Kalabríu nýju lífi en landsframleiðsla á mann er hvergi minni á Ítalíu en þar. Brúin verður 3,3 kílómetrar að lengd, tíu sinnum lengri en ný Ölfusárbrú.

Ríkisstjórn Ítalíu samþykkti í dag að reisa brú sem tengir Sikiley við meginland Ítalíu. Áætlaður kostnaður við byggingu brúarinnar, sem verður lengsta hengibrú í heimi, er 13,5 milljarðar evra, eða hátt í 2.000 milljarðar króna.

Vonir standa til þess að nýja brúin leiði til hagvaxtar og skapi störf beggja vegna Messina-sunds. Matteo Salvini, samgöngu- og innviðaráðherra Ítalíu, sagði á blaðamannafundi í dag að brúin myndi virka sem hraðall fyrir þróun á Sikiley og í Kalabría-héraði, syðst á Ítalíu. Hún ætti eftir að skapa tugi þúsunda starfa. Þjóðarframleiðsla á hvern íbúa er hvergi minni en í þeim héruðum landsins.

Mótmæla umhverfisáhrifum og kostnaði
Fyrirhugaðri brú hefur engu að síður verið mótmælt, einkum umhverfisáhrifum hennar og kostnaði við framkvæmdir. Mótmælendur segja peningunum betur varið í annað. Aðrir hafa áhyggjur af að eins eigi eftir að fara fyrir þessari stórframkvæmd eins og svo mörgum öðrum á Ítalíu, að hún klárist aldrei þrátt fyrir að fjármagn hafi verið tryggt.

Tölvuteikning frá árinu 2005. Hún fylgdi vinningstillögu ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo.
EPA / IMPREGILO / HO

Brúin hefur verið lengi á teikniborðinu, meira en hálf öld er síðan fyrstu teikningar litu dagsins ljós. Ítalska fyrirtækið Webuild fer fyrir fyrirtækjasamsteypunni Eurolink sem sér um framkvæmdir. Eurolink varð hlutaskarpast í útboði ríkisins 2006 en framkvæmdin var sett á ís vegna skuldakreppu á Evrusvæðinu. Þegar útboðið var haldið gekk Webuild undir öðru nafni, Impregilo. Það er fyrirtækið sem reisti Kárahnjúkavirkjun.

Skilgreina kostnaðinn sem útgjöld til varnarmála
Stjórnvöld í Róm hafa búið til eins konar hvata til þess að ljúka framkvæmdunum í eitt skipti fyrir öll – með því að skilgreina framkvæmdakostnaðinn sem fjárútlát til varnarmála. Ítalía hefur, rétt eins og önnur aðildarríki NATO, samþykkt að auka útgjöld til varnarmála umtalsvert, upp í 5% af vergri framleiðslu. Undir þann kostnað mega ríki verja allt að 1,5% af landsframleiðslu í „varnartengda“ innviði. Stjórnvöld binda vonir við að brúin yfir Messina-sund falli undir þá skilgreiningu vegna þess að á Sikiley er herstöð NATO.

Liðsmaður danska flughersins á Sigonella-herstöðinni í vesturhluta Sikileyjar.
EPA / ORIETTA SCARDINO

Hönnun brúarinnar gerir ráð fyrir tveimur járnbrautarlínum og þremur akreinum í báðar áttir. Hún verður 3,3 kílómetrar að lengd og hangir í tveimur 400 metra háum turnum. Það er 1,1 kílómetra lengri en lengsta hengibrú veraldar í dag. Til samanburðar verður ný Ölfusárbrú 330 metrar að lengd, einn tíundi af lengd brúarinnar um Messina-sund. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið 2032.

Heimild: Ruv.is