Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Bráða­birgða­brú hífð yfir Ölfusá – mynd­band

Bráða­birgða­brú hífð yfir Ölfusá – mynd­band

70
0
Mynd: Vegagerðin

Bráðabirgðabrú yfir Ölfusá var hífð á stöpla sína með stærsta krana landsins í byrjun júlí. Í nýju myndbandi Vegagerðarinnar kemur fram að hífingin gekk eins og í sögu. Aðeins tók 20 mínútur að hífa brúna á sinn stað, enda verkefnið mjög vel undirbúið.

Í myndbandinu er rætt við Óskar Örn Vilbergsson hjá ÞG verk. Þar kemur fram að bráðabirgðabrúin vegi á milli 45 og 46 tonn og þá er búið að létta hana eins og mögulegt er. „Til að koma henni á staðinn þá þurfum við stærsta kranann á landinu og hann rétt hefur þetta,“ segir Óskar Örn, en DS lausnir sáu um að hífa brúna með 400 tonnmetra krana.

Uppsetning brúarinnar er lykilþáttur í áframhaldandi framkvæmdunum við nýja Ölfusárbrú en hún tengir Efri-Laugardælaeyju við varnargarð austan megin árinnar og þjónar allri vinnuumferð út í eyjuna. Að sögn Óskars Arnar verður brúin m.a. notuð til að koma tækjum og efni til að undirbúa og byggja aðalundirstöður fyrir nýju brúna.

Ný Ölfusárbrú verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háan turn í Efri-Laugardælaeyju. Verklok eru áætluð í október 2028.

Heimild: Vegagerðin