
Endurtryggingar, eða baktryggingar, eru ekki í boði fyrir fasteignir í Grindavík meðan eldvirkni er enn þar nærri, segir stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar. Stærðfræðingur segir mestu áhættuna hvíla á ríkinu ef allt fer á versta veg.
Meðan eldvirkni er enn nærri Grindavík er ekki hægt að fá endurtryggingarsamninga fyrir fasteignir í bænum. Verðmæti vátryggðra eigna eru 153 milljarðar króna. Fasteignafélagið Þórkatla hefur keypt vel yfir 900 eignir – meira en 90% fasteigna í bænum – fyrir rúmlega 72 milljarða.
Samningar ekki endurnýjaðir um áramót
Hlutverk endurtryggingasamninga er að draga úr áhættu Náttúruhamfaratryggingar Íslands vegna stórra tjónsatburða. Þeir eru endurnýjaðir í lok hvers árs. Í síðustu samningum voru fasteignir í Grindavíkurbæ hins vegar teknar út úr jöfnunni.
Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar, segir að ákvörðunin um að undanskilja fasteignir í Grindavík frá endurtryggingasamningum hafi verið niðurstaða samningaviðræðna við þau tuttugu og fimm erlendu endurtryggingafyrirtæki sem eigi aðild að slíkum samningum hjá stofnuninni. Hann segir iðgjöld vegna endurtrygginga hafa hækkað mikið á síðustu misserum.

RÚV
NTÍ hefur greitt 8 milljarða vegna tjóns í Grindavík
Náttúruhamfaratrygging hefur þegar greitt út rúmlega átta milljarða vegna tjóns í Grindavík og segir Sigurður að sú tala muni að öllum líkindum hækka. Eignirnar séu þó vel tryggðar hjá sjóðnum. Ef núverandi eignastaða, tæplega 50 milljarðar, nægi ekki, sé heimild í lögum til að taka lán með ríkisábyrgð.

RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson
Áhættan of mikil
Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir ekki koma á óvart að samningarnir hafi ekki verið endurnýjaðir. Áhættan sé of mikil.
Þetta er tólfta eldgosið á þessu svæði og þeir segja að við getum bara ekki tryggt svæði þar sem getur gosið á morgun.“
Getur þetta þýtt að iðgjöld hækki?
„Já það er nú þannig að alltaf þegar gerist eitthvað svona, þegar áhætta eykst, þá fylgja iðgjöldin í kjölfarið.“
Benedikt segir að höggið fyrir ríkissjóð geti orðið mikið ef illa fer.
„Af því ríkið er búið að baktryggja þetta á því með því að kaupa eignirnar, það er náttúrlega ríkið sjálft sem er í mikilli hættu ef allt færi á versta veg, sem er hugsanlegt, en auðvitað vonar maður að það verði ekki.“
Heimild: Ruv.is