Home Fréttir Í fréttum Skiptar skoðanir um 200 gesta sveitahótel

Skiptar skoðanir um 200 gesta sveitahótel

31
0
Frá Engjaholti í landi Fells við Reykholt í Bláskógabyggð. Þar eru áform um talsverða uppbyggingu í ferðaþjónustu. RÚV – Anna Lilja Þórisdóttir

Áform eru um hótel, hundrað smáhýsi og fleira í Bláskógabyggð. Sveitarstjóri vonast til að ferðamenn staldri lengur við. Vegakerfið þolir illa umferðina.

Fyrirhuguð hóteluppbygging í landi Fells í Bláskógabyggð, á mótum Bræðratunguvegar og Biskupstungnabrautar vekur blendin viðbrögð. Sveitarstjóri segir fáa aðra atvinnumöguleika í boði.

Svæðið er rúmir 16 hektarar og hefur verið óbyggt. Að verkefninu standa íslenskir fjárfestar og landið mun fá nýtt nafn – Engjaholt. Þar á að reisa hótel fyrir 200 gesti, 100 smáhýsi, baðlaugar og á annan tug annarra bygginga, ef áætlanir ganga eftir.

Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri í Bláskógabyggð.
RÚV

„Þetta er heilmikil uppbygging, þetta er fjölsótt ferðamannasvæði þannig að það er kannski eðlilegt að einhverjir fái þá hugmynd að reyna að byggja upp þjónustu við þá, að þeir fari ekki allir hér í gegn án þess að stoppa,“ segir Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri í Bláskógabyggp.

Segja að vegakerfið þoli viðbótina illa

Verið er að safna undirskriftum gegn þessum framkvæmdum og þar er bent á að umferð á svæðinu muni aukast verulega – nokkuð sem vegakerfið þoli illa. „Það má segja almennt um vegakerfið að það þolir illa þá umferð sem er um svæðið nú þegar,“ segir Ásta. „Það þarf verulega að vinna í að viðhalda og byggja upp vegina. En það er ekki verið að gera ráð fyrir mikilli viðbótarumferð af þessari starfsemi, það er verið að horfa til þess að stoppa þá sem eru á ferðinni.“

Ásta segir óvíst hvort gera þurfi umhverfismat og að enn sé beðið umsagnar Vegagerðarinnar. „Þetta er enn í skipulagsferli. Það getur allt gerst meðan mál eru í þeirri stöðu.“

Er verið að setja öll eggin í sömu körfuna? Að einblína svona mikið á ferðamenn?

„Það má alveg velta því upp. En svo er það spurningin; hvað á landsbyggðin að hafa annað? Það er kannski stóra spurningin sem menn þurfa að velta fyrir sér.“

Heimild: Ruv.is