Ferro Zink og Metal hafa skrifað undir samninga um sameiningu félaganna, með fyrirvara um samþykki hluthafafunda og Samkeppniseftirlitsins.
Sameinað félag verður með yfir 70 starfsmenn, starfsstöðvar á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu. Samtals nam velta félaganna tæpum fimm milljörðum króna á síðasta ári, að því er fram kemur í tilkynningu frá félögunum.
Ferro Zink, áður þekkt sem Sandblástur og Málmhúðun, var stofnað árið 1960 og hefur lengi verið í framleiðslu og zinkhúðun auk innflutnings og sölu á stáli. Félagið rekur starfsemi sína í Hafnarfirði og á Akureyri.
Metal var stofnað árið 2004 og hefur verið í innflutningi og sölu á ryðfríu stáli, áli, plasti og tengdum vörum. Starfsemi félagsins er í Garðabæ.
Í tilkynningu segir meðal annars:
„Við sjáum mikinn hag í þessari sameiningu sem gerir okkur kleift að þjónusta viðskiptavini þessara fyrirtækja á enn markvissari hátt, því þessi fyrirtæki falla vel að hvort öðru,“ segir Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Ferro Zink.
Karl Gunnar Eggertsson, stjórnarformaður Metal, tekur í sama streng: „Eigendur félagsins sjá samruna við Ferro Zink sem spennandi kost fram á veginn, þar sem áratuga reynsla starfsmanna Metal mun nýtast enn betur í þágu viðskiptavina sameinaðs félags.“
Heimild: Mbl.is