Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps gaf á fundi sínum á þriðjudag út framkvæmdaleyfi fyrir væntanlega þéttbýliskjarna í landi Hamborgar. Jarðvegsvinna hefst á næstu dögum og fyrsta skóflustungan að íbúðarhúsum verður tekin um miðjan ágúst.
„Við stefnum á að fyrsta skóflustunga að fyrsta íbúðarhúsinu verði um miðjan ágúst. Það verður gert með viðhöfn,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps. Á jörðinni Hamborg hefur verið skipulagt þéttbýli í sveitinni.
Samið hefur verið við Árnastein ehf., um jarðvegsframkvæmdirnar sem fela í sér slóðagerð inn á svæðið, lagningu vatnsveitu, fráveitu og fjarskiptatenginga inn á svæðið. Verktakinn byrjar á allra næstu dögum og á að vera búinn fyrir lok september.
Vatnsveitan er meðal fyrstu verkefnanna en lagt var út í leit að neysluvatni fyrir kjarnann. „Borunum er lokið. Það fannst mjög öflug lind sem dugir í meira en fullbyggða Hamborg,“ segir Helgi.
Fljótsdalshreppur stefnir á að byggja tvö einbýlishús úr timbri úr dalnum
Húsin verða á endanum það sem mestu máli skiptir. Fljótsdalshreppur var samþykktur inn í Brák íbúðafélag, sem er í eigu rúmlega 30 sveitarfélaga í landinu. Þá á hreppurinn byggðasamlagið Ársali ásamt Múlaþingi en því er ætlað að byggja og reka íbúðir fyrir 60 ára og eldri. Það á yfir 30 íbúðir, allar á Egilsstöðum.
Fljótsdalshreppur hefur óskað eftir að þessi tvö félög, sem og opinbera leigufélagið Bríet, komi að uppbyggingu í Hamborg. Beiðnirnar eru til skoðunar hjá stjórnum félaganna.
Fljótsdalshreppur stefnir sjálfur á að byggja tvö einbýlishús í fyrsta áfanga. Um er að ræða einbýli og er opið hvort þau verði leigð eða seld. Til stendur að þau verði byggð úr efni úr dalnum, það er timbri.
Unnið er að hönnun þeirra ásamt Skógarafurðum ehf., sem fengu til þess 4,6 milljóna króna styrk úr nýsköpunarsjóðnum Lóu nýverið. „Væntanlega verða þessi hús með steyptum sökklum en allt þar fyrir ofan úr efniviði úr Fljótsdal,“ segir Helgi.
Viðræður við opinber íbúðafélög um byggingu leiguhúsnæðis
Þrír einstaklingar hafa pantað lóðir í Hamborg. Minnst einn þeirra ætlar að hefja framkvæmdir í ár. Fyrirtæki og stofnanir með starfsemi í sveitinni hafa sýnt áhuga á að byggja eða leigja húsnæði fyrir starfsfólk.
Aðkoma opinberu íbúðafélaganna yrði þar fyrir utan. Hreppurinn hefur óskað eftir því að Bríet og Brák byggi parhús sem yrðu leigð út en fjöldinn hefur ekki verið ræddur. Samkvæmt skipulagi svæðisins er gert ráð fyrir tveimur parhúsalóðum. Óskað hefur verið eftir að Ársalir byggi 1-2 hús. Hús Bríetar og Brákar yrðu til leigu.
„Í haust gætu verið settir upp 2-4 sökklar. Óskastaðan væri að það yrði endurtekið á næsta ári þannig að í lok árs 2026 væri byrjað á 8-10 húsum. Það væri mjög góð byrjun,“ segir Helgi.
Aukið atvinnulíf kallar á íbúðahúsnæði
Í nýjustu húsnæðisáætlun Fljótsdalshrepps kemur fram að íbúum hafi fjölgað um 30 á síðustu fjórum árum í takt við uppbyggingu atvinnustarfsemi í sveitinni. Út frá áframhaldandi þróun á þeirri braut er reiknað með að þörf sé á níu nýjum íbúðum á næstu fimm árum.
„Ákall um þéttbýlið kom sterkt fram á samfélagsþingi sem haldið var hér árið 2019 og það hefur verið unnið að hugmyndunum síðan. Forsendurnar voru fyrst og fremst að atvinnurekendur skorti húsnæði fyrir sitt starfsfólk. Það á enn við,“ segir Helgi um forsendur uppbyggingarinnar í Hamborg.
Heimild: Austurfrett.is