Home Fréttir Í fréttum Annað tíu íbúða fjölbýlishús að rísa í Selbrún í Fellabæ

Annað tíu íbúða fjölbýlishús að rísa í Selbrún í Fellabæ

10
0
Þrír starfsmenn Búðings ehf. voru að störfum í Selbrún í gær þegar Austurfrétt bar að garði. Mynd AE

Að því gefnu að í ungri fjölskyldu séu tveir til þrír einstaklingar eins og rannsóknir benda til mun íbúafjöldi í Fellabænum aukast um sex til sjö prósent strax næsta vorið. Þá lýkur smíði nýs tíu íbúða fjölbýlishúss í Selbrún í Fellabæ en þetta er annað fjölbýlishúsið sem rís í sömu götunni á tiltölulega skömmum tíma.

Miðað við byggingarmagn húsnæðis í kjörnum Austurlands mörg undanfarin ár er landið mjög að rísa víða. Þar á meðal í götunni Selbrún í Fellabæ þar sem fyrirtækið Búðingar ehf. reisir nú tíu íbúða fjölbýlishús. Segir forsprakki fyrirtækisins að skriður sé komin á smíðina og stefnt sé að því að ljúka öllu saman næsta vor.

Um er að ræða lóðina Selbrún 5 en þar við hlið er þegar fjölbýlishús sömu stærðar en alllangur biðlisti hefur verið á Héraði eftir minni og hentugri íbúðum fyrir ungt fólk og þurfti að velja úr fjölda umsækjenda þegar íbúðir að Selbrún 7 voru auglýstar síðasta haustið.

Fyrirtæki Búðingar, í eigu Róberts Óskars Sigvaldasonar, stendur í uppbyggingu víða á Austurlandi og er byggingaraðili þessa nýja fjölbýlishúss í Fellabænum.

„Þetta hús er ekki sambærilegt við það sem reist var við hliðina á fyrir nokkru. Útlitið er nokkuð frábrugðið því húsi. Ég man nú ekki lit hússins í fljótu bragði en þetta verður allt álklætt og er mjög snyrtilegt hús í alla staði en útlitið er annað en á nágrannabyggingunni.“

Aðspurður um hugsanleg verklok er Róbert ekki efins um að áætluð verklok um maí á næsta ári standist eitt hundrað prósent.

„Það sem ég byrja á það klára ég eins hratt og kostur er. Við erum að miða við að allt verði klappað og klárt strax í maí á næsta ári og ég er ekki efins um að það markmið náist.“

Heimild: Austurfrett.is