Home Fréttir Í fréttum Áætlanir um framkvæmdir við nýjan Landspítala standast ekki

Áætlanir um framkvæmdir við nýjan Landspítala standast ekki

8
0
Framkvæmdir við nýjan Landspítala eru risavaxnar en standast ekki áætlun, samkvæmt nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar. Kastljós – RÚV

Áætlanir um framkvæmdir við nýjan Landspítala hafa ekki staðist og engar formlegar áætlanir hafa verið gerðar um mönnun þegar nýtt húsnæði verður tekið í notkun.

Áætlanir um framgang byggingarframkvæmda við nýjan meðferðarkjarna og rannsóknarhús hafa ekki staðist. Þegar framkvæmdir hófust fyrir sex árum var gert ráð fyrir að meðferðarkjarninn yrði tekinn í notkun árið 2023.

Samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar, sem greint er frá í nýrri stjórnsýsluúttekt embættisins á Landspítala, er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki fyrir lok árs 2028 og að starfsemin verði komin á fullt fyrir árslok 2030.

Nýr Landspítali við Hringbraut er eitt stærsta framkvæmdaverkefni Íslandssögunnar. Heildarkostnaður við verkefnið nemur um 200 milljörðum króna. Í nýja meðferðarkjarnanum munu allar bráðamóttökur spítalans sameinast á einum stað. Kjarninn er um 70 þúsund fermetrar og verður eitt stærsta hús á Íslandi.

Í úttektinni kemur fram að engar formlegar áætlanir hafi verið gerðar um mönnun þegar nýtt húsnæði verður tekið í notkun, til að mynda um frekari mönnun heilbrigðisstarfsfólks.

„Mönnunarþörfin mun haldast í hendur við fyrirsjáanlega aukna eftirspurn eftir þjónustu og eðli þeirrar þjónustu sem verður veitt í meðferðarkjarna, s.s. fjölgun gjörgæslurýma,“ segir í úttekt Ríkisendurskoðunar.

Nýi Landspítalinn hefur fengið ráðgjafafyrirtækið Health Care Relocations (HCR), sem sérhæfir sig í flutningi heilbrigðisþjónustu, til aðstoðar við flutning þjónustunnar þegar nýr Landspítali verður tekinn í notkun.

Undirbúningur þarf að hefjast tveimur til þremur árum fyrir flutningsdag og gera má ráð fyrir að beinn og óbeinn kostnaður vegna flutninganna geti numið tveimur til fjórum prósentum af árlegum rekstrarkostnaði starfseminnar.

Heimild: Ruv.is