Home Fréttir Í fréttum Frestar nýjum Landspítala um 10-15 ár að byggja ekki við Hringbraut

Frestar nýjum Landspítala um 10-15 ár að byggja ekki við Hringbraut

60
0
Drög að nýjum landspítala.

Það myndi fresta afhendingu nýs Landspítala um 10 til 15 ár ef hann verður ekki byggður við Hringbraut. Þetta er niðurstaða athugunar Skipulagsstofnunar og Framkvæmdasýslu ríkisins sem heilbrigðisráðherra óskaði eftir.

<>

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar, beindi þeirri fyrirspurn til heilbrigðisráðherra í maí síðastliðnum hvað það myndi fresta afhendingu nýs Landspítala um mörg ár ef hann yrði ekki byggður við Hringbraut. Ráðherra óskaði eftir formlegu svari frá Skipulagsstofnun og Framkvæmdasýslu ríkisins við þessari spurningu, að hans sögn til þess að ekki væri hægt að saka pólitíkus um að búa til einhvern tímafrest en fyrirspurninni verður svarað í næsta mánuði.

Frestar afhendingu um 10 til 15 ár
„Það að ákveða að byggja yfir þjóðarsjúkrahúsið annars staðar en ráðagerðir eru uppi um í dag, og er raunar hafið, það mun þýða frestun um töluvert langan tíma. Mörg ár,” segir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Fimm ár? Tíu ár?

„Ég get á þessu stigi ekki upplýst það. Í drögum af svari sem að ég hef séð, þá er það verulega langur tími,” segir Kristján.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, staðfesti í samtali við fréttastofu í dag að búið væri að skila ráðherra svari við fyrrgreindri spurningu. Þá staðfesti Ásdís að það væri niðurstaða þessarar athugunar að nýr Landspítali á nýjum stað, til að mynda við Vífilsstaði, myndi fresta afhendingu spítalans um 10 til 15 ár.

Þvert á fullyrðingar
Þessi niðurstaða er þvert á fullyrðingar Samtaka um betri spítala á betri stað. Á vefsíðu samtakanna kemur fram að byggja megi nýjan spítala á betri stað á næstu 10 árum þannig að hann geti verið tilbúinn árið 2025 eða tveimur árum á undan sjúkrahúsinu við Hringbraut.

Nokkrir þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins hafa talað fyrir því að aðrar staðsetningar verði skoðaðar. Meðal annars var Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, spurður að því á Alþingi í vor hvort hann telji koma til greina að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut. Svar ráðherra var eftirfarandi:

„Það væri að mati ráðherra mjög álitlegt að byggja nýjan Landspítala annars staðar, t.d. á Vífilsstöðum.”

Tekið tvo áratugi
Framsóknarflokkurinn hefur haft þá skoðun að það ætti að skoða aðrar staðsetningar. Væri ekki hægt að vinna þetta samhliða, það er að segja að halda áfram að byggja en á sama tíma að skoða aðrar staðsetningar?

„Ég held að við séum bara komin í þá stöðu að framkvæmdir eru hafnar við Hringbrautina. Það er sjálfsagt mál að leiða hugann að því hvort, hvernig, hvenær eigi að hefjast handa við að byggja upp nýjan spítala á öðrum stað en við Hringbraut. Það er lengri tíma verkefni og við sjáum það bara á þessu verkefni sem kennt er við Hringbraut að það hefur tekið um tvo áratugi að koma því á þann stað sem það er í dag,” segir Kristján Þór

Heimild: Visir.is