Betri samgöngur auglýsa eftir tilboðum í seinni hluta framkvæmda við Fossvogsbrú, sjálfa brúarsmíðina. Framkvæmdir við sjóvarnir og landfyllingar, fyrri hluta verksins, hófust í janúar á þessu ári og á báðum verkhlutum að vera lokið haustið 2028. Tilboð verða opnuð 26. ágúst næstkomandi.
Fossvogsbrú er hluti af fyrstu lotu Borgarlínunnar og mun tengja sveitarfélögin Reykjavík og Kópavog yfir Fossvog. Brúin Alda verður 270 metra löng og allt að 17 metra breið. Brúin verður gerð út stálbitum í fimm haflengdum en brúarstólparnir og undirstöðurnar verða úr steinsteypu og verða boraðar niður á fastan berggrunn til að tryggja stöðugleika brúarinnar. Á Fossvogsbrú verða sérstakir útsýnispallar sem kallast álfasteinar, auk lýsingar í handriðum og undir brúargólfi.
Vinna við sjóvarnir og landfyllingar er langt komin á Kársnesi í Kópavogi og áætlað að þeim ljúki þar í júlí á þessu ári. Framkvæmdir við landfyllingar eru svo að hefjast Reykjavíkurmegin á næstu dögum og er gert ráð fyrir að þeim verði lokið í nóvember á næsta ári.
Tilboð verða opnuð 26. ágúst næstkomandi.
Fossvogsbrú er ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum auk forgangsakstri lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs. Áætlaður heildarkostnaður við hönnun, umsjón, framkvæmd og eftirlit verkefnisins er 8,3 milljarðar króna.
Allar helstu upplýsingar um framkvæmdir við Fossvogsbrú má nálgast á sérstakri vefsíðu: borgarlinan.is/framkvaemdir
Heimild: Betri samgöngur ohf.