Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra segir að ekki standi til að opna Bláfjallaveg um Hafnarfjörð aftur að svo stöddu.
Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Árna Rúnars Þorvaldssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar, sem birt hefur verið á vef Alþingis.
Vegurinn, sem hefur verið lokaður síðan snemma árs 2020, þarf á talsverðum framkvæmdum að halda til að geta tryggt umferðaröryggi og vatnsvernd á svæðinu, segir í svari ráðherra.
Áætlaður kostnaður um þrír milljarðar
Til þess að geta hafið framkvæmdir á veginum þyrfti framkvæmdarleyfi ásamt leyfi frá heilbrigðiseftirlitinu um framkvæmdir á vatnsverndarsvæði. Áætlaður kostnaður framkvæmdanna er í kringum 3 milljarðar króna miðað við verðlag í janúar 2025.
Eyjólfur segir framkvæmdirnar of stórar fyrir Vegagerðina eina og sér og ef til þeirra kæmi þyrfti að gera sérstaklega ráð fyrir þeim á samgönguáætlun.
Heimild: Mbl.is