Reykjavíkurborg áformar nú endurbyggingu leikskólans Hagaborgar og verður skólanum væntanlega lokað næsta haust.
Samkvæmt upplýsingum frá borginni eru þessi áform á frumstigi og því liggur ekki nákvæmlega fyrir hvaða áhrif þetta hefur á innskráningu leikskólabarna í haust og aðeins er um að ræða elsta húsið sem tók til starfa hinn 14. nóvember árið 1960. Í þeirri byggingu á sömu lóð sem er yngri verður áfram starfsemi.
Hagaborg á sér 65 ára sögu í borginni. Húsið var byggt af Barnavinafélaginu Sumargjöf sem setti á stofn fjögurra deilda dagheimili á neðri hæð og á efri hæð var skrifstofa og fundarsalur Sumargjafar. Þar var ljósastofa Hvítabandsins og um tíma íbúð fyrir forstöðukonu dagheimilisins. Árið 1997 keypti Reykjavíkurborg húsið af Sumargjöf, og var allt húsið tekið undir leikskólastarfsemi.
Heimild: Mbl.is