Home Fréttir Í fréttum Akstursbraut við Egilsstaðaflugvöll byggð í þremur áföngum

Akstursbraut við Egilsstaðaflugvöll byggð í þremur áföngum

21
0
Fyrsti áfangi akstursbrautar yrði lykkja við norðurendann. Hún myndi strax nýtast vel sem þotustæði enda lenda flestar vélar til norðurs. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

ISAVIA lætur hanna viðbót við Egilsstaðaflugvöll svo þar sé hægt að taka á móti fleiri vélum ef Keflavíkurflugvöllur lokast. Akstursbraut og stæði meðfram flugvellinum verða byggð í þremur áföngum og gætu reynst mikilvæg í neyðartilvikum.

Egilsstaðaflugvöllur er mikilvægur varavöllur en þar hefur ekki verið hægt að taka á móti nema fjórum eða fimm vélum samtímis því stæði skortir. Þegar fjöldi véla flýgur til landsins daglega þyrfti að vera hægt að raða upp fleiri þotum. ISAVIA er að ljúka forhönnun á fyrsta áfanga akstursbrautar meðfram vellinum. Byrjað yrði á lykkju við norðurendann, enda lenda vélar í 70% tilvika til norðurs og þar mætti raða upp sex þotum til viðbótar.

„Menn eru fyrst og fremst að bregðast við neyðartilvikum á Keflavíkurflugvelli. Í raun bara á góðum degi að vél fari út af eða það yrðu einhver óhöpp og honum yrði lokað um lengri eða skemmri tíma. Þá þarf að ná þeim vélum sem hingað eru á leið niður. Fyrst og fremst er þetta bara viðbúnaðarþjónusta,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri ISAVIA innanlandsflugvalla.

Eykur öryggi og léttir flugvélar að hafa öflugri varavelli

Meira pláss fyrir vélar er reyndar líka hagstætt fyrir flugfélög og loftslagið. Vélar þurfa að bera minna eldsneyti ef flugvöllur hér á landi er valinn sem varavöllur og þær þurfa síður að hringsóla jafnvel eldsneytislitlar ef næsta vél á undan er snögg í stæði og þarf ekki að aka flugbrautina á enda.

Akstursbrautin verður byggð í þremur áföngum, næst yrði önnur lykkja gerð við suðurendann og svo tenging á milli.

Varaflugvallagjaldið ekki hrein viðbót til flugöryggis

Það ræðst í nýrri samgönguáætlun í haust hvenær framkvæmdir hefjast á Egilsstöðum en peningarnir ættu að vera til. Varaflugvallagjald er farið að skila ríkinu tekjum. Í fyrra námu þær um einum og hálfum milljarði króna en ríkið skammtar ISAVIA af gjaldinu til framkvæmda.

„Við fáum það ekki alveg að fullu, það verður að viðurkennast. Við áttum von á því að þetta gjald yrði fyrst og fremst notað í flugöryggistengd verkefni og skilgreint þannig eins og það var sett á. En nú er svo komið að þetta er í raun okkar eina framlag til framkvæmda á innanlandsflugvöllunum, hverju nafni sem þær nefnast. Þannig að það gefur augaleið að það þarf meira til,“ segir Sigrún Björk.

Heimild: Ruv.is