Home Fréttir Í fréttum Nýr skóli hefur göngu sína í ágúst í Kópavogi

Nýr skóli hefur göngu sína í ágúst í Kópavogi

29
0
Sigrún Hulda Jónsdóttir og Ásdís Kristjánsdóttir skoðuðu Barnaskóla Kársness á dögunum ásamt Grétari Jóhannssyni verkefnastjóri framkvæmdarinnar og standa hér inni í einni skólastofu skólans.

Barnaskóli Kársness er nýr skóli í Kópavogi sem hefur göngu sína í ágúst. Barnaskóli Kársness verður samrekinn leik- og grunnskóli og hafa 40 leikskólabörn nú þegar fengið boð um pláss í skólanum. Nú er verið að auglýsa eftir leikskólakennurum og er áhuginn mikill að sögn Sigrúnar Huldu Jónsdóttur, deildarstjóra leikskóladeildar.

„Það er mjög mikil tilhlökkun sem felst í að opna nýjan skóla og ýmis tækifæri sem bjóðast kennurum og starfsfólki við að móta starfið. Þá er spennandi að bjóða upp á samrekinn leik- og grunnskóla en það hefur ekki áður verið gert í Kópavogi,“ segir Sigrún Hulda.

Barnaskóli Kársness stendur milli Skólagerðis og Holtagerðis og er tæpir 6000 m2 að stærð. Skólinn er reistur úr timbureiningum og byggingin Svansvottuð.

Barnaskóli Kársness er hulinn tjaldi á meðan á framkvæmdum stendur en það verður fjarlægt þegar utanhúsfrágangi er lokið.

„Hér er verður tekin í notkun mjög falleg bygging sem mun mynda góða umgjörð utan um leik- og grunnskólastarf Barnaskóla Kársness. Við hlökkum til að taka á móti nemendum í þessum nýjasta skóla bæjarins og hefja hér skólastarf,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.

Gert er ráð fyrir 400 börnum í skólanum, þar af 80 leikskólabörnum. 40 rýmum hefur þegar verið úthlutað. Nemendur 1.-4.bekkjar á Kársnesi hafa verið í Kársnesskóla við Vallargerði, síðan Kársnesskóli sem stóð við Skólagerði var rýmdur vegna rakaskemmda. Kennarar grunnskólahlutans flytja sig því um set í ágúst. Leikskólahluti skólans er hins vegar viðbót og því þarf að bæta við leikskólakennurum og öðru starfsfólki.

Cowi sá um heildarhönnun skólans en Batteríið og Landslag ehf. voru í teyminu með Cowi. Hönnunarstjóri hönnunarteymisins var Jón Ólafur Ólafsson arkitekt.

Heimild: Kopavogur.is