Home Fréttir Í fréttum Sorglegt að svo mörgum þurfi að vísa frá iðnnámi

Sorglegt að svo mörgum þurfi að vísa frá iðnnámi

28
0
Hilmar Harðarsson er formaður Félags iðn- og tæknigreina. RÚV – Ragnar Visage

Þrátt fyrir að sífellt fleiri útskrifist með sveinspróf hér á landi er hundruðum umsókna í iðn- og verknám hafnað á ári hverju. Enn fleiri gætu þurft frá að hverfa í haust þegar einn fjölmennasti árgangur Íslandssögunnar kemur inn í framhaldsskólana.

Þrátt fyrir að sveinsprófsútskriftum hafi fjölgað verulega síðustu ár vantar enn mikið upp á að skólakerfið anni ásókn í verk- og iðnnám. Þetta segir Hilmar Harðarson, formaður Félags iðn- og tæknigreina, og kallar eftir efndum á fyrirheitum ríkisstjórnarinnar.

Hagstofa Íslands sagði nýlega frá því að skólaárið 2022-2023 hafi 877 lokið sveinsprófi og hafa aldrei verið fleiri.

Sérstaka athygli vekur að veruleg fjölgun hefur verið í eldri aldurshópum, sérstaklega í hópi 35 ára og eldri.

Hilmar segir að iðn- og verknám hafi verið í mikilli sókn síðustu ár sem ekki sjái fyrir endann á. Iðnnám sé fyllilega samkeppnisfært við annað nám.

„Það sem ég hef áhyggjur af aftur á móti er að það er verið að vísa 7-800 manns frá í skólakerfinu.“

Þar á Hilmar við þann hóp nemenda sem er ekki að koma beint úr grunnskóla, en þau hafa forgang í skólapláss.

Fólk í eldri hópnum búi oft að mikilli og verðmætri þekkingu og sé að leita sér réttinda.

„Það er eiginlega svolítið sorglegt, vegna þess að það er sú flóra sem við þurfum til viðbótar til að þekking og fjölgun í greinunum verði eðlileg.“

Kvöldnám og nýr skóli gætu verið lausnin

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem tók við í vetur var sérstaklega vikið að því að efla þurfi iðn- og verknám. Hilmar segir það fagnaðarefni en þó sé enn beðið eftir efndum.

Hilmar segir að meðal annars væri hægt að bjóða upp á kvöldnám fyrir eldri hópinn.

„Vegna þess að það er alveg ljóst að þegar svona stórir árgangar koma inn munu þeir fylla þau pláss sem eru laus. Þá þurfum við að koma til móts við þennan hóp með skipulagningu á kvöldnámi eða raunfærnismati inn í greinarnar þar sem við getum tekið við hópnum og sett á annan stað og þá er hann kominn lengra, enda kannski búnir að vinna lengi í greinunum og svo framvegis.“

Hilmar segir að til langtíma litið þurfi að byggja upp aðstöðu til kennslu verkgreina. Það sé sannarlega verið að vinna í málunum en betur megi ef duga skal.

„Ég vil sjá jafnvel annan iðnskóla hér á höfuðborgarsvæðinu, því það er alveg ljóst að það er næg eftirspurn og verið að vísa of mörgum frá.“

Íslendingar þurfi að spýta í lófana ef við ætlum að komast á svipaðan stað og Norðurlönd og Evrópuþjóðir þar sem eru 45-55% iðnaðarmanna. Hér á landi sé hlutfallið tæp 30%.

Hilmar segir framtíðina annars bjarta í iðngreinum hér á landi.

„Sérstaklega ef það verður komið til móts við okkur með að fjölga plássum, og sérstaklega gagnvart þessum tímabundna vanda næstu tvö árin, þar sem stórir árgangar eru að útskrifast.“

Heimild: Ruv.is