Vegfarendur í Vogabyggð hafa veitt því athygli að verið er að gera við fjölbýlishús í nýju hverfi. Við nánari skoðun kemur í ljós að verið er að gera við hús í Kuggavogi en byggingarár þess er skráð 2019.
Samkvæmt heimildum blaðsins stóðu íbúar frammi fyrir því að velja á milli viðgerðar eða þess að setja nýjan veðurhjúp utan á húsið og völdu þeir síðari kostinn. Ekki er verið að skipta um alla glugga heldur er verið að endurþétta og yfirfara samskeyti.
Jafnframt er verið að gera við raðhús sem eru hluti af sömu heild. Verkefnið var kallað Trilluvogur 1 í kynningu arkitekta (Kuggavogur 15-19 og Trilluvogur 1-9).

Sjónsteypa utanhúss
Fram kom í auglýsingu vegna einnar íbúðarinnar árið 2023 að húsið væri staðsteypt og á því varin sjónsteypa utanhúss með lituðum flötum.
Skemmdir svo skömmu eftir að húsið var tekið í notkun benda til þess að skort hafi upp á fráganginn til að húsið stæðist íslenska veðráttu.
Nokkuð var lagt í hönnunina en stærra húsið er lyftuhús með bílageymslu. Dæmi eru um að íbúðir séu með aukinni lofthæð og gólfsíðum gluggum en mikið útsýni er frá efri hæðum.

Viðmælandi blaðsins, sem þekkir til húsaviðgerða, sagði viðgerðina ekki einsdæmi þegar nýleg fjölbýlishús eru annars vegar.
Þvert á móti sé ekki óalgengt að ágallar komi í ljós á nýlegum byggingum. Mikill byggingarhraði eigi þátt í því.

Íbúðirnar í sölu í apríl 2019
Sagt var frá því í apríl 2019 að íbúðirnar í Kuggavogi 15-19 og Trilluvogi 1-9 væru komnar í sölu. Annars vegar væri um að ræða sex hæða fjölbýlishús með 40 íbúðum og hins vegar fimm raðhús á þremur hæðum.
Samkvæmt fasteignavef mbl.is var verð íbúðanna frá 34,9 milljónum króna og verð raðhúsanna frá 89,9 milljónum.
Síðarnefnda upphæðin er u.þ.b. 123 milljónir á núvirði. Var þá áformað að afhenda íbúðirnar í ágúst og raðhúsin í september sama ár. Þótti sæta tíðindum að raðhús kæmu í sölu í þessum borgarhluta.
Fyrir rúmu ári kom eitt raðhúsið í sölu og var ásett verð þá 134,9 milljónir en það er 189,2 fermetrar að stærð.

Heimild: Mbl.is