Fyrirtækið JT Verk, sem hefur sérhæft sig í framkvæmdastjórn við byggingaframkvæmdir, hefur breytt nafni sínu í JTV.
Að sögn Jónasar Halldórssonar, stofnanda og forstjóra JTV, var ákveðið fyrir tveimur árum að fara í markvissa stefnumótun til að skerpa áherslur og staðfæra fyrirtækið sem leiðandi í umsjón byggingaframkvæmda. Nafnabreytingin sé liður í þeirri vinnu ásamt nýju lógói og nýrri vefsíðu, að fram kemur í tilkynningu.
Jónas er verkfræðingur að mennt og á að baki langan feril í byggingariðnaði. Hann vann á verkfræðistofu til margra ára og var m.a. hönnunarstjóri við byggingu Hörpu áður en hann fluttist til Noregs.
„Góð verkstjórn við byggingaframkvæmdir skiptir höfuðmáli og er eitthvað sem við ættum að leggja mun meiri áherslu á hér á landi. Framkvæmdastjórn við verklegar framkvæmdir er sérstakt fag sem nýtur virðingar víða erlendis því það sparar bæði tíma og fé að láta til þess bæra fagaðila sjá um utanumhald stærri framkvæmda“ segir Jónas í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is