Fjármálaráðuneytið segir fjármagn ekki eyrnarmerkt ákveðnum byggingum eins og nýju húsnæði undir geðþjónustusvið Landspítala. Hins vegar sé gert ráð fyrir fjármagni í annan áfanga LSH á seinni hluta fjármálaáætlunar.
Fjármálaráðuneytið er búið að fela Nýjum Landspítala ehf að hefja undirbúning að nýju geðþjónustuhúsi og dag-, legu- og göngudeildarhúsi. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Hönnun bygginga sé hins vegar ekki hafin og fjármagn hafi ekki verið eyrnarmerkt ákveðnum byggingum.
Spegillinn greindi frá því fyrir helgi að enn væri óljóst hvar ný bygging undir geðþjónustu Landspítalans ætti að rísa og bent var á hennar væri hvergi getið í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar. Fjármálaráðuneytið segir að það sé gert ráð fyrir fjármagni í 2. áfanga nýs Landspítala á seinni hluta fjármálaáætlunar sem hægt væri að nýta í geðþjónustuhús eða dag-, legu- og göngudeildarhús.
Fjallað hafi verið um 2. áfanga, þar með talið legudeild og geðdeild í rammagrein fjármálaáætlun fyrir árin 2024 til 2028 sem leit dagsins ljós fyrir tveimur árum.
Páll Matthíasson, formaður geðráðs og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, sagðist í Speglinum hafa viljað sjá nýtt húsnæði fyrir geðsvið Landspítalans nefnt á nafn. „Við verðum að treysta því að í næstu áætlun að ári komi skýrt fram að geðhúsið eigi að rísa.“
Heimild: Ruv.is