Home Fréttir Í fréttum Ætla að byggja nýjan miðbæjarkjarna á Reyðarfirði

Ætla að byggja nýjan miðbæjarkjarna á Reyðarfirði

43
0
Nýr miðbæjarkjarni rís á túni við höfnina. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Miðbærinn á Reyðarfirði tekur stakkaskiptum á næstu árum. Þar stendur til að byggja nýjan kjarna og flytja iðnað á önnur svæði í firðinum.

Á Reyðarfirði var byggður upp verslunarkjarni fyrir tuttugu árum, á sama tíma og álver Alcoa Fjarðaáls var reist í firðinum. Íbúum fjölgaði mjög en miðbærinn hefur tekið hægum breytingum. Nú stendur til að byggja upp á túni á besta stað við höfnina.

„Það er fjárfestir sem er að skoða það að hefja uppbyggingu á miðbæ hér í Reyðarfirði og ætlar að byggja miðbæjarkjarna sem er kærkomin búbót inn í samfélagið okkar. Það er þörf á uppbyggingu og í þessari uppbyggingu værum við að horfa á þjónusturými og skrifstofurými. Hóteluppbyggingu með tilheyrandi heilsulind sem myndi auka lífsgæði hér,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Vilja auka þjónustu og lífsgæði á Reyðarfirði

„Íbúafjöldi á Reyðarfirði hefur tvöfaldast síðustu ár þannig að við höfum lagt vinnu í að byggja upp íbúðarhúsnæði. Og það hefur kannski minna farið fyrir þjónustunni en nú ætlum við að fara að einbeita okkur að þjónustu og auknum lífsgæðum samhliða því,“ segir Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður skipulags- og framkvæmdanefndar.

Í kjarnanum sem fyrirtækið R101 hyggst byggja yrðu meðal annars 25 hótelherbergi og nýr veitingastaður. Í miðbænum er nú iðnaður á lóðum sem betur mætti nýta undir mannlífið. Verkefnið er að finna þeirri starfsemi annan stað en Fjarðabyggð á forkaupsrétt að lóðum.

„Við að sjálfsögðu erum að hugsa þetta til framtíðar og erum að horfa á allt svæðið hér í kringum þennan reit sem um ræðir núna. Þannig að að sjálfsögðu munum við taka það til skoðunar þegar fram líður,“ segir Þuríður Lillý.

Heimild: Ruv.is